Steven Seagal fær rússneskan ríkisborgararétt

Vinirnir Vladimír Pútín og Steven Seagal.
Vinirnir Vladimír Pútín og Steven Seagal. AFP

Forseti Rússlands, Vladimír Pútín, hefur ritað undir tilskipun um að bandaríski hasarhetjuleikarinn Steven Seagal fái rússneskan ríkisborgararétt.

Seagal og Pútín er vel til vina og hefur Seagal oft heimsótt Rússland og varið stuðning rússneskra yfirvalda um aðskilnað Krímskagans frá Úkraínu opinberlega.

Talsmaður forsetaskrifstofu Rússlands, Dmitrí Peskov, segir að leikarinn hafi sóst hart eftir því að fá rússneskan ríkisborgararétt. Hann sé þekktur fyrir hlýjar tilfinningar í garð Rússlands og hafi aldrei reynt að leyna þeim.

Franski leikarinn Gérard Depardieu fékk rússneskt vegabréf árið 2013 eftir að hann flúði skatta í heimalandinu. Eins hefur Pútín veitt bandaríska hnefaleikakappanum Roy Jones ríkisborgararétt eftir að þeir fengu sér te saman á Krímskaganum. Jafnframt hefur bandaríski fjöllistamaðurinn Jeff Monson fengið ríkisborgararétt úr hendi Pútíns.

Frægðarsól Seagals reis sem hæst á níunda áratugnum og snemma á síðasta áratug síðustu aldar með myndum eins og Under Siege og Above the Law. Hann er enn gríðarlega vinsæll í Austur-Evrópu og fékk í janúar serbneskan ríkisborgararétt.

Líkt og Depardieu hefur hann eytt drjúgum tíma með Pútín en þeir deila mörgum áhugamálum svo sem áhuga á bardagalistum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert