ESB vill veiða áfram við Bretland

AFP

Vonir breskra sjómanna um að Bretland gæti endurheimt fiskimiðin í kringum landið í kjölfar útgöngu landsins úr Evrópusambandinu gætu orðið að engu í kjölfar minnisblaðs frá Evrópuþinginu sem lekið var til fjölmiðla. Talsmenn þess að Bretland ætti að ganga úr sambandinu lögðu meðal annars áherslu á að endurheimta miðin.

Frá þessu er greint á fréttavef breska dagblaðsins Guardian en minnisblaðið, sem blaðið hefur undir höndum, inniheldur uppkast að sjö ákvæðum sem þingmenn á Evrópuþinginu vilja að verði í fyrirhuguðum samningi á milli Bretlands og Evrópusambandsins um útgöngu landsins. Stefnt er að því að viðræður um útgönguna hefjist síðar á þessu ári.

Fram kemur í minnisblaðinu að „ekki verði um að ræða aukningu í hlutdeild Bretlands í aflaheimildum í sameiginlegum fiskistofnum (núverandi skipting aflaheimilda verði óbreytt í lögsögu Evrópusambandsins og Bretlands).“. Enn fremur að með tilliti til skuldbindinga á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærar veiðar sé „erfitt að sjá nokkurn annan valkost en áframhaldandi notkun á sameiginlegri sjávarútvegsstefnu sambandsins.“.

Skilyrði fyrir aðgangi að innri markaði ESB

Breskir sjómenn hafa lengi verið gagnrýnir á sameiginlega sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins en samkvæmt minnisblaðinu vill sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins að aðgangur Bretlands að innri markaði sambandsins verði háður því skilyrði að Bretar haldi áfram í heiðri réttindi og skyldur samkvæmt sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni.

Sjávarútvegsnefndin vill enn fremur að fiskiskip frá ríkjum Evrópusambandsins geti áfram siglt undir breskum fána en greint hefur verið frá því að hollenska útgerðarfélagið Cornelis Vrolijk veiði 23% aflaheimilda í enskri lögsögu að því er segir í fréttinni. Enn fremur að fiskiskip frá Evrópusambandinu verði að njóta sömu réttinda í Bretlandi og bresk fiskiskip. Ekki verði heimilt að setja skilyrði sem gætu hindrað starfsemi þeirra innan Bretlands.

Þá segir í minnisblaðinu að framtíðartengsl Bretlands og Evrópusambandsins á sviði sjávarútvegsmála verði að skoða í samhengi við vilja Breta til þess að halda nánum tengslum við samstarfsríki innan sambandsins og innri markað þess. „Sérhver samningur sem tryggir aðgang Bretlands að innri markaði Evrópusambandsins verður að tryggja aðgang að fiskimiðum Bretlands fyrir fiskiskip sambandsins.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert