Sjálfdýrkandi en ekki endilega geðveikur

Donald Trump hefur verið umbunað fyrir hegðun sína frekar en ...
Donald Trump hefur verið umbunað fyrir hegðun sína frekar en refsað, segir prófessor í geðlækningum. AFP

Er Donald Trump geðveikur? Þessu hafa Bandaríkjamenn og fleiri velt fyrir sér undanfarnar vikur. Geðlæknar hafa verið dregnir í myndver og þeir látnir segja sína skoðun. Einhverjir þeirra eru á því að Trump glími við geðræn vandamál, hann sé augsjáanlega sjálfdýrkandi.

Allen Frances, prófessorinn sem skrifaði skilgreiningu á sjálfsástarpersónuleikaröskun (e. Narcissistic Personality Disorder, NPD) í biblíu bandarískra geðlækna, Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders, segir að vel geti verið að forsetinn sé sjálfdýrkandi í fremstu röð en það þýði ekki að hann sé veikur á geði.

„Trump veldur alvarlegri streitu frekar en að upplifa hana sjálfur. Honum hefur verið ríkulega umbunað frekar en refsað fyrir mikilmennsku sína, sjálfhverfu og skort á samkennd,“ skrifar Frances í New York Times.

Þetta samrýmist ekki helstu einkennum NPD sem eru samkvæmt skilgreiningu Frances: Ýkt álit á eigin ágæti, draumórar um velgengni, völd, gáfur og fegurð, trú á það að vera einstakur og krefjast aðdáunar, að nýta sér aðra sjálfum sér til framdráttar, skortur á samkennd, öfund, drambsemi, hroki og að tala niður til og fyrirlíta aðra. 

Hafi viðkomandi fimm eða fleiri þessara einkenna bendir það til sjálfsástarpersónuleikaröskunar. Frances prófessor segir að ekkert sé bætt með því að úthrópa fólk sem geðveikt.

Á að gera grín að geðveiku fólki?

Í pistli sem Greg Milam, fréttamaður Sky-fréttastofunnar, skrifar er bent á að ef Trump glími við geðsjúkdóm, eigi hann þá ekki samúð skilið, frekar en að gert sé grín að veikindum hans? „Væri það eitthvað annað en að gera grín að fötluðum fréttamanni til dæmis?“ skrifar Milam en Trump gerði einmitt það fyrir nokkrum mánuðum og var harðlega gagnrýndur fyrir.

Milam bendir einnig á að hingað til hafi það ekki þótt góð vinnubrögð að geðlæknir greini sjúklinga án þess að taka þá til meðferðar sjálfir, líkt og einhverjir slíkir hafa gert vestanhafs undanfarið.

Prófessorinn Frances skrifaði í New York Times í tilefni af aðsendri grein heilbrigðisstarfsfólks sem taldi vísbendingar um að geðheilsa Trumps væri með þeim hætti að hann væri óhæfur til að gegna forsetaembættinu.

Frances er augljóslega enginn aðdáandi Trumps en hefur þetta til málanna að leggja: „Það er móðgun í garð þeirra sem eru veikir á geði (sem eru yfirleitt kurteisir og velviljandi) að slengja þeim saman við Trump (sem er hvorugt). Mótefnið við myrku miðaldatímabili Trumps er pólitísks eðlis, ekki geðræns.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Egat Standard Rafmagns - Nuddbekkur V :193.000
Egat Standard.Rafmagnsnuddbekkur Verð 193.000 Olíu og Vatnsheldur Lyftir 204 ...
Aupair í Bandaríkjunum
Við óskum eftir aupair til að aðstoða við að reka heimilið. Vinnan felst fyrst o...
Húsgangaviðgerðir og bólstrun
Ég tek að mér viðgerðir og bólstrun á gömlum og nýjum húsgögnum. Starfsemin fer ...
Lóð til sölu
Glæsilegar eignarlóðir til sölu í Fjallalandi við Leirubakka. Kjarri og skógi va...