Þyngstu refsingar fyrir valdaránstilraun

Erdogan hefur ítrekað lýst yfir áhuga sínum á því að …
Erdogan hefur ítrekað lýst yfir áhuga sínum á því að endurvekja dauðrefsingar í landinu. AFP

Dómstóll í Ankara í Tyrklandi hefur dæmt 23 einstaklinga í lífstíðarfangelsi fyrir þátttöku í valdaránstilraun sem átti sér stað í júlí á síðasta ári. Um er að ræða fyrstu dómana sem falla í Ankara í tengslum við hið misheppnaða valdarán, en þar fara mikilvægustu réttarhöldin fram. Allir sakfelldu eru fyrrverandi hermenn. AFP greinir frá.

Voru þeir fundir sekir um að virða stjórnarskrána að vettugi og að svipta einstaklinga frelsi sínu. Saksóknari hélt því fram að þeir hefðu þvingað hershöfðingjann Fahri Kasirga, einkaritara Recep Tayyip Erdogan forseta, inn í sjúkrabíl og flutt hann í herflugstöð þar sem valdaránið er talið hafa verið skipulagt.

18 hinna sakfelldu voru dæmdir til íþyngjandi lífstíðar fangelsisvistar, en hinir 5 í lífstíðarfangelsi. Íþyngjandi fangelsisvist felur í sér strangari gæslu við erfiðari aðstæður. Slík refsing kom í stað dauðarefsingar sem var afnumin í Tyrklandi árið 2004. Tveir hermenn voru sýknaðir í sömu réttarhöldum.

Erdogan hefur reyndar oft vakið máls á því að endurvekja dauðarefsingar í landinu fyrir sakborninga í málum tengdum valdaráninu. Þær yfirlýsingar hafa þó heyrst sjaldnar eftir góðan sigur í þjóðaratkvæðagreiðslu um aukin völd forsetans, sem fór fram í apríl

Yfirvöld í Tyrklandi telja að múslimaklerkurinn Fethullah Gulen beri ábyrgð á valdaránstilrauninni, en hann hefur þvertekið fyrir það. Yfir 50 þúsund einstaklingar; opinberir starfsmenn, prófessorar, dómarar, saksóknarar, hermenn og lögreglumenn hafa verið handteknir í landinu, vegna gruns um tengsl við Gulen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert