Er Trump hræddur við að reka Bannon?

Trump og Bannon, degi eftir embættistöku Trumps. Þær raddir eru …
Trump og Bannon, degi eftir embættistöku Trumps. Þær raddir eru nú háværar sem vilja að Bannon verði rekinn. AFP

Mánuðum saman hafa Steve Bannon einn helsti ráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta og þjóðaröryggisráðgjafi hans, H.R McMasters barist um völd á bak við tjöldin. Reuters fréttastofan segir deilu þeirra McMasters og Bannon nú mögulega leiða til enn einna mannabreytinga í starfsliðið Hvíta hússins.

Trump er nú undir miklum þrýstingi frá hófsamari Repúblikönum að reka Bannon, ekki hvað síst vegna tengsla hans við hægri öfgahreyfingar sem m.a. hafa verið í kastljósinu vegna mótmæla í Charlottesville um helgina.

Forsetinn hefur sjálfur sætt gagnrýni fyrir að fordæma ofbeldisaðgerðir hægri öfgamanna í Charlottesville nógu beinum orðum. Síðast í gær sagði Trump að sökin lægi hjá báðum fylkingum. 

Þá neitaði Trump í gær að lýsa opinberlega yfir stuðningi við Bannon, en hélt möguleikum sínum opnum. „Við sjáum hvað gerist með Bannon,“ sagði Trump við fréttamenn í Trump turninum í gær.

Hefur áður staðið höllum fæti

Ákvörðun forsetans er sögð kunna að hafa áhrif á kjarnorkusamninga við Íran, veru bandarískra hersveita í Afganistan og frekari ráðningar í Hvíta húsinu, en allt eru þetta sögð vera málefni sem þeir Bannon og McMasters hafa deilt um.

Bannon hefur áður staðið höllum fæti, en forsetinn hefur haldið honum til þessa þrátt fyrir örar mannabreytingar. Er þetta sagt ekki hvað síst vegna þess að Bannon hafi átt stóran þátt í sigri hans og að margir af hörðustu stuðningsmönnum forsetans koma úr röðum stuðningsmanna Bannons.

„Forsetinn er augljóslega hræddur við að reka hann,“ hefur Reuters eftir heimildamanni í Hvíta húsinu. Trump kunni því að grípa til þess ráðs að lækka Bannon í tign, í stað þess að reka hann. Bannon kynni enda að verða harður gagnrýnandi stjórnarinnar verði hann neyddur út úr innsta hring.

Breitbart vill að McMasters sé rekinn

Tveir háttsettir embættismenn sem báðir styðja McMasters segja hann kenna Bannon um árásir á sig, sem hægriöfga fréttaveitan Breitbart hefur staðið fyrir undanfarið. Bannon var stjórnandi síðunnar og fór fyrir hægri öfgahópum áður en hann kom til starfa fyrir Trump.

Breitbart hefur undanfarnar vikur birt röð greina þar sem hvatt er til þess að McMasters verði rekinn. Hann sé ekki mikill stuðningsmaður stjórnvalda í Ísrael og þá er hann sagður hafa ráðið til starfsfólk úr Obama-stjórninni til starfa í Þjóðaröryggisráðinu.

„Ég kann vel við Bannon. Hann er vinur minn, en hann kom seint til starfa. Ég var búin að fá stuðning 17 öldungadeildarþingmanna, ríkisstjóra og vann allar forkosningarnar. Bannon kom til starfa eftir það,“ sagði Trump við fjölmiðla og reyndi að draga úr áhrifum ráðgjafans á framboð sitt.

Guardian segir marga þó þeirrar skoðunar að það sé Bannon, sem hvísli ráðum í eyra Trump og að hann sé höfundur hugmyndafræðinnar á bak við framboð Trumps.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert