Tveir í haldi vegna hvarfs stúlkunnar

Maëlys de Araujo er ákaft leitað af lögreglu í frönsku …
Maëlys de Araujo er ákaft leitað af lögreglu í frönsku Ölpunum. AFP

Franska lögreglan hefur handtekið annan mann í tengslum við hvarf Maëlys de Araujo í brúðkaupsveislu í frönsku Ölpunum um síðustu helgi. Araujo er níu ára gömul og er eins og jörðin hafi gleypt hana.

Síðast sást til hennar aðfaranótt sunnudags í veislusal í bænum Pont-de-Beauvoisin, sem er í 50 km fjarlægð frá Grenoble. Þar var hún í brúðkaupsveislu ásamt foreldum og fjölskyldu. Fjölmennt lið lögreglu og björgunarsveitarmanna hefur leitað hennar í skóglendi allt í kring án árangurs. 

Maëlys de Araujo er níu ára gömul en ekkert hefur …
Maëlys de Araujo er níu ára gömul en ekkert hefur spurst til hennar í sex daga. AFP

Telur lögreglan að stúlkunni hafi verið rænt og í gær var 34 ára gamall maður handtekinn í tengslum við rannsóknina. Félagi hans og jafnaldri var síðan handtekinn í dag. Í báðum tilvikum er ósamræmi í vitnisburði þeirra sem veldur því að lögregla telur rétt að yfirheyra þá frekar.

Sá sem var handtekinn í gær var gestur í brúðkaupinu en hann getur ekki gert grein fyrir því með óyggjandi hætti hvar hann var þegar stúlkan hvarf. Heimildir AFP-fréttastofunnar herma að lögreglan rannsaki nú farsíma hans sem hann faldi fyrir lögreglu. Verið er að fara yfir framburð þeirra beggja og bera saman, að sögn saksóknara sem fer með málið.

Lögreglan hefur yfirheyrt um 250 manns vegna málsins síðan á sunnudag, þar á meðal flesta þeirra 180 gesta sem voru í brúðkaupinu. Jafnframt hafa þeir sem voru í veislum í nágrenninu verið yfirheyrðir. 

Kafarar taka þátt í leitinni að Maëlys de Araujo.
Kafarar taka þátt í leitinni að Maëlys de Araujo. AFP
mbl.is