„Bara fædd hóra“

Cyntoia Brown hefur öðlast skyndilega frægð eftir að hafa eytt ...
Cyntoia Brown hefur öðlast skyndilega frægð eftir að hafa eytt síðustu 13 árum ævi sinnar í fangelsi. Hún var aðeins 16 ára gömul er hún drap mann sem ætlaði að kaupa af henni vændisþjónustu. Skjáskot/Twitter

Cyntoia Brown hefur öðlast skyndilega frægð eftir að hafa eytt síðustu 13 árum ævi sinnar í fangelsi. Nú keppast stjörnur á borð við Rihönnu, LeBron James, Snoop Dogg, Cara Delvigne og Kim Kardashian West hins vegar við að lýsa yfir stuðningi við hina 29 ára gömlu Brown, sem var aðeins 16 ára gömul er hún drap mann sem ætlaði að kaupa af henni vændisþjónustu.

Lögfræðingur Brown, en hún hlaut lífstíðardóm 2006, segir hana vera fórnarlamb mansals.

Mál Brown vakti nokkra athygli í Nashville árið 2011 eftir að hún var viðfangsefni heimildamyndar á PBS-sjónvarpsstöðinni. Það er þó ekkert á við athyglina sem mál hennar hefur nú hlotið á samfélagsmiðlum. Ekki er ljóst hvað veldur athyglinni nú þó að sjónvarpsstöðin Fox 17, sem íbúar hluta Michigan-ríkis ná, hafi fjallað um mál hennar í síðustu viku.

Bjó á móteli með melludólg 16 ára

„Við erum mjög, mjög þakklát fyrir að þessi mikli fjöldi frægra einstaklinga taki þátt í málsbeiðni okkar,“ hefur New York Times eftir Charles Bone, lögfræðingi í Nashville sem tók að sér að mál Brown án greiðslu fyrir sjö árum síðan. „Hún var himinlifandi að fólki virkilega stæði ekki á sama.“

Brown er sögð sýna merki fósturskaða vegna áfengisneyslu móður sinnar á meðgöngu, sem m.a. hafi haft áhrif á heilaþroska hennar.

Hún var ættleidd af fjölskyldu í Clarksville, Tennessee, en hætti í skóla og stakk af til Nashville. Þegar hún var 16 ára bjó hún á móteli með melludólg að nafni Kut Throat (sem útleggja mætti sem Hálsaskerðir). Hann nauðgaði henni og misþyrmdi og neyddi hana til að stunda vændi.  

„Enginn vildi mig nema hann“

„Hann sagði við mig að sumar væru bara fæddar hórur og ég væri ein þeirra. Ég væri dræsa og enginn vildi mig nema hann. Þannig að það besta sem ég gæti gert væri að læra að verða góð hóra,“ sagði Brown í vitnisburði sínum að sögn AP-fréttastofunnar.

Það var svo í ágúst 2004 sem maður að nafni Johnny Allen tók hana upp í bíl sinn og fór með hana heim til sín og fór með hana í rúmið. Allen teygði sig því næst undir rúmið og segist Brown hafa haldið að hann væri að teygja sig eftir byssu. Hún tók því skammbyssu upp úr veski sínu og skaut hann. Því næst tók hún peninga hans og tvær byssur og yfirgaf húsið.

Réttað var yfir Brown sem fullorðnum einstaklingi árið 2006 og hafnaði kviðdómur fullyrðingu hennar um sjálfsvörn. Hún var dæmd í lífstíðarfangelsi fyrir morð af fyrstu gráðu og afplánar nú dóm sinn í kvennafangelsinu í Nashville. Hún á ekki rétt á skilorði fyrr en hún verður 67 ára gömul.

Fyrirmyndarfangi og þingmannavinur 

Stuðningsmenn Brown segja hana vera fyrirmyndarfanga. Hún hefur lokið framhaldsskólaprófi og stundar nú fjarnám við Lipscomb University, kristilegan einkarekinn háskóla í Nashville. Hún vonast til að ljúka BA-prófi á næsta ári.

Repúblikaninn og þingmaðurinn Jeremy Faison heimsótti Brown í fangelsið 2015 að beiðni vinar og hefur frá þeim tíma barist fyrir því að hún verði látinn laus fyrr. Þau ræða yfirleitt saman í síma fjórum sinnum í viku.

„Ég var steinhissa á einstaklingnum sem ég hitti,“ sagði hann. „Hún var ljúf, gáfuð og hafði eitthvað við sig sem var alveg dásamlegt.“ Hann segir Brown iðrast gjörða sinna, en hún hafi þó líka orðið fyrir óréttlæti. 

Bone kveðst vonast til að Brown nýti orku sína í að berjast gegn mansali. „Það er sjaldan sem einhver sem er jafn-vel máli farinn og hún getur sagt ég hef upplifað þetta. Ég hef gert þetta og ég vil tala um þetta og láta heiminn vita að þetta er hræðilegt vandamál,“ sagði hann.

Saksóknarinn er hins vegar á öðru máli og telur Brown ekki hafa verið fórnarlamb mansals.

Vill endurskoðun á lífstíðardómum ungmenna

Faison lagði fram frumvarp í fyrra sem kvað á um að eftir 15 ára fangelsisdvöl ætti að endurskoða lífstíðardóma þeirra sem dæmdir voru á unglingsaldri. Það hlaut ekki góðar viðtökur. „Ég var jarðaður,“ segir hann en það voru einkum flokksfélagar hans í Repúblikanaflokknum sem voru mótfallnir frumvarpinu.

Mál Brown er nú í áfrýjunarferli, en Bone segir hana eiga rétt á nýjum réttarhöldum þar sem hún hafi fengið lélegan lögfræðing. Hann segir lífstíðardóminn einnig brjóta í bága við áttundu grein stjórnarskrárinnar sem bannar grimmilegar og óvenjulegar refsingar. Til þessa hafa áfrýjunarbeiðnirnar borið lítinn árangur, en Brown hefur ekki gefið upp alla von.

mbl.is
UHD skjáir ( 4k )
Upplýsingar gefur Ólafur hjá Varmás ehf. sími 566 8144 ...
Tölvuþjónusta
Alhliða tölvuviðgerð, vírushreinsun, vírusvarnir, gagnabjörgun og verðtilboð. F...
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...
 
Breyting á deiliskipulagi í flatey
Leikskólakennsla
Breyting á deiliskipulagi í Flat...
L edda 6018022019 i
Félagsstarf
? EDDA 6018022019 I Mynd af auglýsin...
Úthlutun
Tilkynningar
Auglýsing vegna úthlutunar byggð...
Félagslíf
Staður og stund
Aflagrandi 40 Opin vinnustofa frá kl 9, ...