Enn ekkert flug vegna gosösku

Eldglæringar sjást úr eldfjallinu Agung. Hætta er á að hraun …
Eldglæringar sjást úr eldfjallinu Agung. Hætta er á að hraun fari fljótlega að renna frá því. AFP

Annan daginn í röð er alþjóðaflugvöllurinn á Balí nú lokaður vegna gosösku sem kemur frá eldfjallinu Agung á eyjunni. Eiginlegt gos hófst í eldfjallinu í síðustu viku og nú stendur gosmökkurinn rúmlega þrjá kílómetra upp í loftið. Hæsta viðbúnaðarstigi hefur verið lýst yfir og um 100 þúsund manns sem voru í um tíu kílómetra fjarlægð frá fjallinu var í gær gert að rýma svæðið.

Gosaska getur skemmt flugvélahreyfla og jafnvel valdið alvarlegum bilunum. Þá getur hún einnig stíflað eldsneytisleiðslur og kælikerfi. Að auki getur hún spillt skyggni verulega.

Í gærmorgun var ákveðið að loka flugvellinum í sólarhring. Þá var um 400 flugferðum frestað eða aflýst og um 60 þúsund ferðamenn komust ekki leiðar sinnar. Á miðnætti á íslenskum tíma var svo ákveðið að framlengja lokuninni ekki síst í ljósi þess að vindáttin hefur breyst og askan frá Agung getur borist með suðvestlægum áttum að flugvellinum.

Flugvöllur á nálægri eyju, Lombrok, hefur þó verið opnaður en þangað ganga ferjur. 

Eldfjallið Agung er í um 70 kílómetra fjarlægð frá Kuta og Seminyak sem eru vinsælustu viðkomustaðir ferðamanna á eyjunni.

Í nótt mátti sjá eldglæringar frá fjallinu vegna fljótandi hrauns sem kraumar ofan í því. Þykk gosleðja, sambland ösku og vatns, renna niður fjallshlíðarnar. Yfirvöld hafa varað fólk við því að fara nálægt ám og lækjum af þessum sökum.

Um 29 þúsund manns sem bjuggu í nágrenni fjallsins hafast nú við í neyðarskýlum. Töluverður fjöldi hefur yfirgefið eyjuna. Enn eru margir á hættusvæðinu, m.a. þeir sem ekki vilja skilja búfénað sinn eftir. Yfirvöld segja að fólk verði fjarlægt með valdi ef það fari ekki bráðlega í neyðarskýlin.

mbl.is