Sundrung meðal samherja í Jemen

Loftárásir hafa verið tíðar í jemensku höfuðborginni Sanaa síðustu klukkustundir.
Loftárásir hafa verið tíðar í jemensku höfuðborginni Sanaa síðustu klukkustundir. AFP

Ítrekaðar loftárásir hafa verið gerðar í höfuðborg Jemen í dag. Átök milli uppreisnarmanna og liðsmanna forsetans fyrrverandi, Ali Abdullah Saleh, eru þó ekki bundin við Sanaa. Árásir voru m.a. gerðar í nágrenni alþjóðaflugvallarins í borginni og á innanríkisráðuneytið sem eru á valdi uppreisnarmanna Húta sem sagðir eru njóta stuðnings Írana í borgarastríðinu. 

Hernaðarbandalagið sem Sádi-Arabar leiða er þó það eina sem hefur burði til að gera loftárásir í Sanaa. Ekki hefur fengist staðfest að bandalagið standi að árásunum í Sanaa í dag. 

Íbúar í nágrenni flugvallarins segja að í gær hafi hús þeirra skolfið ítrekað vegna loftárása sem héldu svo áfram í nótt og í dag. Svo virðist sem búðir uppreisnarmanna í nágrenni flugvallarins hafi verið skotmarkið. Ekki hafa verið gerðar árásir á flugvöllinn sjálfan síðustu klukkustundir. 

Átökin brutust út á miðvikudagskvöld milli uppreisnarmanna Húta og stuðningsmanna Saleh. Í nótt voru þau m.a. áköf í heimabæ Saleh, bænum Sanhan, suður af Sanaa.

Vannært barn á heilsugæslustöð í Jemen. Mjög erfitt hefur reynst …
Vannært barn á heilsugæslustöð í Jemen. Mjög erfitt hefur reynst að koma hjálpargögnum til landsins þar sem setið er um hafnirnar og flugvellina. AFP

Í gær höfðu um 60 manns látist í bardögum í höfuðborginni frá því á miðvikudag. Ekki hafa fengist tölur um mannfall í dag. 

Stríðandi fylkingar í Jemen eru í grunninn þrjár; Hútar, stuðningsmenn Saleh, fyrrverandi forseta, og stuðningsmenn núverandi forseta, Abedrabbo Mansour Hadi. Herir þess síðastnefnda njóta liðsinnis erlendra stórvelda á borð við Sádi-Arabíu.

Frá árinu 2014 höfðu Hútar og stuðningsmenn Saleh átt í samstarfi og m.a. í sameiningu þvingað Hadi og hans stuðningsmenn frá höfuðborginni Sanaa. En á laugardag tilkynnti Saleh að hann væri viljugur að ræða við fulltrúa Sádi-Araba og annarra bandalagsríkja um að aflétta hindrunum á flutningi fólks og varnings um flugvelli og hafnir í Jemen. Þetta fór þveröfugt ofan í leiðtoga Húta, Abdul Malik al-Huthi, en samstarf hans og Saleh var þegar orðið viðkvæmt. 

Í kjölfarið hafa átök brotist út á milli þessara fyrrverandi samherja í borgarastríðinu og er óttast að mikið manfall muni fylgja. Þegar hafa um 8.750 Jemenar fallið í stríðinu frá því að Sádar hófu afskipti af því árið 2015. 

Þjóðin er á barmi hungursneyðar og á ákveðnum svæðum er fólk nú þegar að svelta í hel. Heilbrigðiskerfið er hrunið og sömuleiðis menntakerfið. Þá er rafmagnsleysi viðvarandi sem og matar- og lyfjaskortur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert