Spurlock játar sök og segist vera hluti af vandamálinu

Morgan Spurlock sló í gegn árið 2004 með myndinni sinni …
Morgan Spurlock sló í gegn árið 2004 með myndinni sinni Super Size Me sem var gagnrýni á bandarísku skyndibitamenninguna. Hann hefur bæst í hóp þeirra karlmanna í Hollywood sem hafa gerst sekir um kynferðisofbeldi. mbl.is/Árni Torfason

Bandaríski kvikmyndagerðarmaðurinn Morgan Spurlock hefur játað opinberlega að hafa gerst sekur um kynferðislega áreitni. Hann segist vera „hluti af vandamálinu“.

Spurlock, sem er 47 ára gamall, er þekktastur fyrir heimildamyndir sínar, en hann sló í gegn með Super Size Me sem kom út árið 2004. Hann sótti Ísland heim árið 2011.

Í færslu sem hann birti á Twitter greindi Spurlock frá því að hann hefði verið sakaður um nauðgun og að hann hefði verið sakaður um kynferðislega áreitni, en í síðarnefnda málinu greiddi hann konunni ótilgreinda upphæð í sáttagerð. Frá þessu er greint á vef BBC.

Hann viðurkenndi jafnframt að hann hefði haldið fram hjá hverri einustu eiginkonu og kærustu sem hann hefur átt. 

Í færslunni er tengill á langa yfirlýsingu frá Spurlock. Hann segist hafa áttað sig á því, í tengslum við #metoo-byltinguna, að hann sé ekki saklaus áhorfandi heldur hluti af vandamálinu. 

Hann segist hafa verið sakaður um nauðgun þegar hann var í menntaskóla. Hann segir að málið hafi ekki verið kært til lögreglu eða verið rannsakað heldur hafi konan skrifað um atvikið á meðan hún var í skólanum og nafngreint Spurlock. 

Þá segir hann að hann hafi verið sakaður um kynferðislega áreitni gagnvart samstarfskonu sinni fyrir átta árum. Það mál var leyst með sáttagerð. Spurlock segir að málið hafi ekki snúist um snertingar eða káf. Þetta hafi verið áreitni með orðum og það sé ekkert betra við það.

„Ég kallaði aðstoðarkonu mína „kynæsandi buxur“ þegar ég var að kalla á hana frá hinum enda herbergisins. Eitthvað sem mér fannst fyndið á sínum tíma, en ég áttaði mig svo á því að ég hafði lítillækkað hana,“ skrifar Spurlock.

Hann segir að þegar konan hafi ákveðið að hætta hafi hún óskað eftir sáttagerð í staðinn fyrir þögn sína. 

„Þar sem ég var sá sem ég var, þá var þetta það síðasta sem ég vildi, og því borgaði ég henni að sjálfsögðu.“

„Ég greiddi fyrir hugarró. Ég greiddi fyrir þögn hennar og samstarf. Síðast en ekki síst, þá greiddi ég svo ég gæti haldið áfram að vera maðurinn sem ég var.“

Spurlock segir enn fremur frá því að hann hafi verið fórnarlamb kynferðisofbeldis þegar hann var barn auk þess sem hann eigi við áfengisvandamál að stríða. Hann segist vera að leita sér aðstoðar, m.a. með því að viðurkenna vandamálin opinberlega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert