Segja olíubann vera stríðsyfirlýsingu

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu.
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu. AFP

Norðurkóresk stjórnvöld segja nýjustu viðskiptaþvinganir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna gegn Norður-Kóreu vera ígildi stríðsyfirlýsingu en öryggisráðið samþykkti í gær að setja hámark á magn olíu sem flytja má til Norður-Kóreu. Bannið felur í sér að Norður-Kórea getur aðeins flutt um fjórðung þess magns sem ríkið hefur flutt inn til landsins.

Þá samþykkti öryggisráðið jafnframt að vísa norðurkóreskum ríkisborgurum, sem starfa utan landsins, aftur til Norður-Kóreu fyrir lok árs 2019, en norðurkóreska ríkið hefur haft tekjur af ríkisborgurum sem starfað hafa utan landsins. Kínverjar styðja báðar aðgerðirnar.

„Við höfnum nýjustu þvingunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þær eru alvarlegur brestur á sjálfstæði landsins og er stríðsyfirlýsing sem eyðileggur friðinn og stöðugleikann á Kóreuskaganum og nágrenni hans,“ segir í yfirlýsingu frá utanríkisráðuneyti Norður-Kóreu sem var birt í ríkisfjölmiðlinum KCNA.

Ástæða hertra þvingana eru nýlegar tilraunir yfirvalda Norður-Kóreu með kjarnorkuvopn og langdrægar eldflaugar, nú síðast 29. nóvember. Þá skutu Norðurkóreumenn á loft langdrægri flaug af gerðinni Hwasong-15, en sérfræðingar telja sprengjuna geta náð til allra helstu borga Bandaríkjanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert