Birti myndskeið af líki

Bandarísk YouTube stjarna, Logan Paul, hefur beðist afsökunar á að hafa birt myndskeið þar sem sést greinilega í fórnarlamb sjálfsvígs í Japan. Birting myndskeiðsins vakti harða gagnrýni en Logan Paul sést á myndskeiðinu í Aokigahara skóginum við rætur Fuji-fjalls. Skógurinn er þekktur sem sem sjálfsvígsskógurinn en eft­ir út­gáfu skáld­sög­unn­ar Kuroi Jukai, þar sem ung­ur elsk­andi frem­ur sjálfs­morð í skóg­in­um, hafa þar verið fram­in fjölmörg sjálfs­víg ár­lega. Vegna þessa hefur skiltum verið komið upp í skóginum þar sem fólki, sem íhugar sjálfsvíg, er bent á úrræði sér til hjálpar. 

Í myndskeiðinu sést Logan Paul ganga fram á lík ásamt félaga sínum og á sama tíma og þeim er greinilega brugðið þá eru þeir að gantast sín á milli. 

Meðal ummæla sem féllu eru „viðbjóðslegt“ og „vanvirðing“ en myndskeiðið var birt á gamlársdag. Milljónir hafa horft á myndskeiðið á YouTube en það hefur nú verið fjarlægt og Logan Paul beðist afsökunar á birtingunni í færslu á Twitter.

Yfir 15 milljónir eru áskrifendur að færslum Logan Paul á YouTube. 




Logan Paul.
Logan Paul. Af loganpaul.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert