Formaður Oxfam handtekinn í Gvatemala

Juan Alberto Fuentes hefur verið handtekinn í Gvatemala, en hann …
Juan Alberto Fuentes hefur verið handtekinn í Gvatemala, en hann er fyrrverandi fjármálaráðherra landsins. AFP

Juan Alberto Fuentes, formaður hjálparsamtakanna Oxfam International, hefur verið tekinn höndum í Gvatemala. Er hann nú í haldi í tengslum við rannsókn á hneykslismáli vegna spillingar sem nær aftur til þess tíma sem hann gegndi embætti fjármálaráðherra landsins. BBC greinir frá.

Fuentes hefur ekki verið ákærður enn um sinn, en þó að málið tengist ekki stöðu hans innan Oxfam þá eykur það enn þrýsting á samtökin vegna nýlegra fregna af vændiskaupum starfsmanna þeirra á Haítí.

Framkvæmdastjóri Oxfam, Winnie Byanyima, segir Fuentes hafa sannfært stjórn Oxfam um að hann verið samvinnufús við rannsókn málsins, enda sé hann þess fullviss að hann hafi ekki brotið neinar reglur vísvitandi.

Fuentes er einn tíu fyrrverandi ríkisstarfsmanna Gvatemala sem hafa verið handteknir. Þar á meðal er fyrrverandi forseti landsins, Álvaro Colom. Ráðamennirnir sæta nú rannsókn vegna almannasamgangakerfis sem var í þróun í valdatíð Colom á árunum 2008 til 2012. Engar nánari upplýsingar hafa verið gefnar um það hvers konar ákærum þeir handteknu gætu þurft að sæta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert