Stærsta fíkniefnamál Norður-Noregs

Lögreglan í Tromsø segir málið það stærsta sem komið hefur …
Lögreglan í Tromsø segir málið það stærsta sem komið hefur upp í Norður-Noregi. Myndin er úr safni. AFP

Lögreglan í Tromsø í fylkinu Troms í Norður-Noregi handtók í október serbneskan ríkisborgara á fimmtugsaldri þar í bænum en sá hafði í fórum sínum 66 kílógrömm af amfetamíni. Þetta er stærsta fíkniefnamál sem komið hefur upp í Norður-Noregi og gerði Yngve Myrvoll, deildarstjóri rannsóknar- og forvarnadeildar Tromsø-lögreglunnar, grein fyrir höfuðdráttum málsins á blaðamannafundi sem nú var að ljúka þar norður frá.

„Þetta er klárlega stærsta fíkniefnamál sem komið hefur upp í Norður-Noregi nokkru sinni,“ sagði Myrvoll á fundinum og bar málið saman við stærsta mál fram að því sem snerist um rúm átta kílógrömm af amfetamíni og kom upp fyrir nokkrum árum.

Lögreglan varðist allra frétta af smáatriðum málsins þrátt fyrir ákafar spurningar fjölmiðla úr sal, svo sem um hverjar kringumstæðurnar hefðu verið við handtökuna. „Við kjósum að tjá okkur ekki um það að svo búnu,“ var í nokkrum tilfellum eina svarið sem fékkst.

250.000 neysluskammtar af amfetamíni

Myrvoll taldi þó óhætt að greina frá því að aðdragandi málsins hefði verið nokkur og hefði rannsókn, sem meðal annars teygði sig til Þýskalands í samvinnu við þarlend lögregluyfirvöld, leitt til handtökunnar í Tromsø.

Hinn grunaði hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn en refsirammi í svo stóru fíkniefnamáli er tíu ár samkvæmt 232. grein norsku hegningarlaganna en getur náð allt að 21 ári sé „mafíuákvæðinu“ (n. mafiaparagrafen) svokallaða í a-lið 60. gr. hegningarlaganna beitt en með ákvæðinu er skapað sérstakt úrræði til að dæma „bakmennina“ svonefndu, þá sem standa að baki innflutningi og dreifingu fíkniefna í Noregi án þess að koma beinlínis að því sjálfir að meðhöndla efnin.

Var þessu ákvæði meðal annars beitt í stóru amfetamín- og hassmáli sem dómur féll í árið 2013 en þá hlaut Hells Angels-leiðtoginn Ove Jørgensen Høyland níu ára fangelsisdóm. Auk hans hlutu fimm aðrir dóm samkvæmt mafíuákvæðinu en átta voru ákærðir í allt í máli þar sem rannsakandur fóru meðal annars gegnum hleranir á 35.000 símtölum og 24.000 SMS-skilaboðum.

Yngve Myrvoll sagði enn fremur á blaðamannafundinum í Tromsø að amfetamínið sem tekið var nú í október hefði getað skilað sér á götuna sem 250.000 neysluskammtar að verðmæti 33 milljónir norskra króna sem jafnast á við rúmar 420 milljónir íslenskra króna.

Umfjöllun norska ríkisútvarpsins NRK

Umfjöllun norska dagblaðsins VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert