Hækka byssukaupaaldur í Flórída

Nemendur Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólans í Flórída hafa verið duglegir að …
Nemendur Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólans í Flórída hafa verið duglegir að mótmæla byssulöggjöf ríkisins. AFP

Öldungadeild Flórídaríkis samþykkti í dag að herða byssulöggjöf ríkisins, en stutt er frá því að 17 manns létust í árás á Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólann í ríkinu að því er BBC greinir frá.

Samþykkti þingið með naumindum að hækka leyfilegan aldur til vopnakaupa úr 18 árum í 21 ár og að þriggja daga biðtími yrði settur á afhendingu flestra vopna.

Nicholas Cruz, sem myrti nemendur og kennara í Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólanum, var 18 ára gamall er hann keypti hálfsjálfvirka riffilinn sem hann notaði í árásinni.

Kusu 20 þingmenn með frumvarpinu, en 18 voru á móti. Viðauki sem kvað á um að gera kennurum í skólum að bera vopn var hins vegar fjarlægður áður en frumvarpið var tekið til afgreiðslu. Hlýddu öldungadeildarþingmenn á þriggja tíma vitnisburði fórnarlamba árásarinnar áður en þeir greiddu því atkvæði.

Frumvarpið þarf í framhaldinu að fá samþykki ríkisstjóra Flórída og fulltrúadeildar þingsins. Víða um Bandaríkin er óheimilt að kaupa skammbyssu fyrr en viðkomandi hefur náð 21 árs aldri og eins er víða þriggja daga biðtími í gildi. Í Flórída var lágmarksaldurinn hins vegar 18 ár og enginn biðtími eftir afhendingu vopnsins.

„Tel ég frumvarpið ganga nógu langt? Nei, það geri ég ekki,“ sagði Lauren Book, öldungadeildarþingmaður Demókrataflokksins, í samtali við AP-fréttastofuna. Hún kvaðst hafa vonast eftir banni við árásarvopnum, en að öldungadeildin hefði þegar verið búin að hafna því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert