Hörð átök við ísraelsku landamærin

Þúsundir Palestínumanna í Gaza hafa gengið að landamærunum að Ísrael, en gangan er upphafið að sex daga mótmælum. Heilbrigðisráðuneyti Palestínu segir að a.m.k. sex hafi látist og 750 særst í átökum sem brutust út. Margir eru sagðir hafa særst eftir að hafa orðið fyrir byssukúlum ísraelskra hermanna.

Þetta kemur fram á vef BBC. Þar segir enn fremur, talsmenn Ísraelshers hafi greint frá óeirðum á sex svæðum og að skotið hafi verið á þá sem stóðu fyrir þeim til að brjóta þau upp. 

Palestínumenn hafa reist fimm tjaldbúðir við landamærin til að mótmæla, en gangan hefur verið kölluð „Gangan mikla til baka“. Palestínumenn krefjast þess að flóttafólk megi snúa aftur til heimila sinna sem heyra nú undir Ísrael.

Ísraelsher segir að um 17.000 Palestínumenn séu nú staddir á fimm stöðum við landamærin. Herinn segist hafa beitt vopnum gegn þeim sem hafi brennt dekk og kastað bensínsprengjum og grjóti í landamæragirðinguna. 

Þá hefur herinn víða komið fyrir skriðdrekum og leyniskyttum auk þess sem herinn hefur beitt táragasi til að neyða palestínska mótmælendur til að hörfa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert