Fékk 50 þúsund króna sekt út af epli

Konan fékk eplið gefins um borð í vél Delta airlines …
Konan fékk eplið gefins um borð í vél Delta airlines og var það í lokuðum poka. Mynd/Delta Air Lines

Kona sem ferðaðist með flugi frá París til Bandaríkjanna á dögunum fékk 500 dollara sekt, um 50 þúsund krónur íslenskar, eftir að epli sem hún fékk gefins um borð í fannst í töskunni hennar. Það var bandaríska tollgæslan sem gaf út sektina. BBC greinir frá.

Crystal Tadlock, var á leið frá Parísar til Denver, en þurfti að skipta um vél í Minniapolis. Hún hafði, líkt og aðrir farþegar, fengið epli gefins um borð í vél Delta Air Lines, en ákvað að geyma það og eiga til góða í næstu flugferð, frá Minneapolis til Denver. Eplið var í lokuðum poka merktum flugfélaginu.

Tadlock var tekin í handahófskennda skoðun hjá bandarísku tollgæslunni við komuna til Minneapolis og fannst þá eplið í töskunni hennar. Hún gerði grein fyrir uppruna eplisins og spurði hvort hún ætti að borða það eða henda því. Í staðinn fékk hún afhenta sekt upp á 500 dollara fyrir að hafa ekki gert grein fyrir ávextinum að eigin frumkvæði.

Tadlock getur nú annað hvort greitt sektina eða farið með málið fyrir dómstóla, en hún hyggst gera hið síðarnefnda, að fram kom í viðtali við hana á sjónvarpsstöðinni KDVR.

„Það er mjög óheppilegt að þurfa að ganga í gegnum þetta. Það var komið fram við mig eins og glæpamann út af ávexti,“ sagði hún í viðtalinu.

BBC óskaði eftir viðbrögðum frá Delta en flugfélagið vildi ekki tjá sig um atvikið. Talsmaður þess hvatti hins vegar fólk til að virða bandarísk tollalög. Tollgæslan vildi heldur ekki tjá sig við BBC en benti á að gera þyrfti grein fyrir öllum landbúnaðarvörum sem komið væri með til landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert