Starfsmenn utan stéttarfélaga ganga í störf fréttamanna

mbl.is/Rósa Braga

Ekkert bendir til þess að verkfalli 1.700 fréttamanna norska ríkisútvarpsins NRK sé að ljúka. Óvissa var um  útsendingar frá þjóðhátíðarhöldum í Noregi á morgun en starfsmenn sem ekki eru í verkfalli verða látnir fylla í skarðið.. Deilurnar eru sagðar geta staðið í allt að 8 vikur samkvæmt umfjöllun Aftenposten.

Á morgun er þjóðhátíðardagur Noregs  en stjórnarskrá landsins var samþykkt 17. maí árið 1814.

Norðmenn gera mikið úr þessum degi, grunnskólabörn verða að taka þátt í skrúðgöngu og klæðast Norðmenn í sínum fínustu fötum sem oft er sjálfur þjóðbúningurinn eða bunad á norsku.

Aðrir starfsmenn gegna hlutverkum fréttamanna

Mikið uppnám varð þegar hætta var á að ríkisfjölmiðillinn myndi ekki sýna frá hátíðarhöldunum, en Marius Lillelien hjá NRK segir að sýnt verður frá hátíðarhöldunum þrátt fyrir verkfallið. Aðeins verður sýnt frá Osló, en hefð er fyrir því að bein útsending sé frá öllum landshlutum. Þar sem hefðbundnu þulirnir eru í verkfalli hefur öðrum starfsmönnum NRK verið falið það verkefni.

Fredrik Solvang, þáttastjórnandi hjá NRK sem er í verkfalli, segir við Verdens Gang að hann hafi hugsað „hvað í andskotanum,“ þegar hann frétti af því að ríkisfjölmiðillinn hafi fengið aðra starfsmenn til þess að ganga í starf fréttamanna.

Solvang segir það grátlegt að NRK sé að grafa undan verkfallinu og að forstöðumenn fjölmiðilsins ættu að hugsa sinn gang. Hann bendir á að tilgangur verkfallsins er að hafa bein áhrif á útsendingar og að það sé eftirtektarvert að nýtt sé vinnuafl utan stéttarfélaga á   sjálfum þjóðhátíðardeginum.

Norðmenn halda 17. mái hátíðlegan á hverju ári

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert