Ók bifreið á fjölskyldu sína

AFP

Rúmlega sextugur karlmaður var í dag handtekinn í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum eftir að hann ók bifreið sinni á fjölskyldu sína sem var að borða fyrir utan veitingastað í borginni Bessemer City. Maðurinn hafði skömmu áður setið með henni til borðs.

Fram kemur í frétt AFP að maðurinn, Roger Glenn Self, hafi ekið bifreið sinni, hvítri jeppabifreið, á fjölskyldu sína með þeim afleiðingum að dóttir hans og tengdadóttir létu lífið.

Dóttir Selfs var 26 ára gömul og starfaði sem lögreglumaður en tengdadóttir hans starfaði sem hjúkrunarfræðingur. Eiginkona hans, Diane, hlaut alvarleg meiðsl og sömuleiðis sonur hans, Josh, og 13 ára barnabarn hans, dóttir Josh og Amöndu Self.

Ég sá stóla og borð og bolla fljúga í allar áttir“

Vitni segja Self hafa staðið upp frá borðinu, sagst ætla að bregða sér frá, farið að bifreið sinni og síðan ekið henni beint að borðinu þar sem fjölskylda hans sat. Hann stendur frammi fyrir tveimur morðákærum. 

„Ég sá hvíta Jeep-bifreið fara á fullri ferð framhjá mér,“ er haft eftir þjóninum Brandon Wilson. „Þetta var mjög óraunverulegt. Ég sá stóla og borð og bolla fljúga í allar áttir. Þetta hljómaði eins og hvirfilbylur.“

Haft er eftir vinum Selfs í dagblaðinu Gaston Gazette að hann hafi starfað sem einkaspæjari en átt við andlega vanheilsu að stríða undanfarið og þunglyndi. 

„Hann var að reyna að verða sér úti um hjálp,“ er haft eftir prestinum Austin Rammell í sókn Selfs. „Við vorum að reyna að útvega honum aðstoð.“

Roger Glenn Self.
Roger Glenn Self. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert