Fjögur börn drepin eftir gíslatöku

Lögreglan í Flórída að störfum.
Lögreglan í Flórída að störfum. AFP

Gíslatökumál í Flórída í Bandaríkjunum endaði illa þegar byssumaður drap fjögur börn áður en hann framdi sjálfsvíg.

Málið hófst í Orlando á sunnudaginn þegar lögreglan fékk ábendingu um heimilisofbeldi í íbúð og var einn lögreglumaður skotinn á vettvangi. Ástand hans er alvarlegt.

Byssumaðurinn neitaði að fara út úr íbúðinni en þar var hann ásamt börnunum, sem voru á aldrinum eins til ellefu ára.

„Fyrir skömmu síðan réðumst við inn í íbúðina og sáum að öll börnin höfðu verið drepin af hinum grunaða og svo virðist sem þau hafi verið skotin,“ sagði lögreglustjóri Orlando, John Mina.

„Svo virðist sem hinn grunaði hafi einnig framið sjálfsvíg.“

Lögreglan var í sambandi við byssumanninn í allan gærdag.

Byssumaðurinn átti erfitt með að ná símasambandi við lögregluna og þegar lögreglan ætlaði að láta hann hafa nýjan síma sáu lögreglumenn lík eins barns og ákváðu að reyna að bjarga hinum en án árangurs.

Byssumaðurinn hét Gary Lindsey og var 35 ára. Hann hafði fengið reynslulausn úr fangelsi eftir að hafa setið inni fyrir íkveikju og fleiri brot.

Talið er að hann hafi átt tvö barnanna en að konan sem lét lögregluna vita af heimilisofbeldinu hafi átt hin tvö.

Hún hringdi í lögregluna eftir að hafa flúið úr íbúðinni á sunnudagskvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert