Notuðu gervihjónabönd til að fá dvalarleyfi

Sumar giftinganna áttu sér stað í Mexíkó eða Bandaríkjunum án …
Sumar giftinganna áttu sér stað í Mexíkó eða Bandaríkjunum án þess að báðir aðilar væru viðstaddir giftinguna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Yfirvöld í Danmörku og Þýskalandi náðu í dag að leysa upp skipulögð glæpasamtök, með aðstoð Europol, en samtökin notuðu gervihjónabönd við ríkisborgara Evrópusambandsríkja til að aðstoða ólöglega innflytjendur frá Asíuríkjum við að fá varanlegt dvalarleyfi í löndunum.

Samtökin höfðu haldið úti starfsemi sinni frá 2015 og höfðu smyglað inn a.m.k. 1.200 manns á þeim tíma, sem þau rukkuðu um allt að 13.000 evrur fyrir þjónustuna.

Í fréttatilkynningu frá Europol segir að um 18 mánaða rannsókn liggi að baki aðgerðunum í dag og var húsleit gerð á fjölda staða í Þýskalandi og Danmörku sem leiddi til handtöku höfuðpaura samtakanna.

Glæpasamtökin héldu úti nokkrum hjónabandsskrifstofum og notuðu umboðsaðila til að freista ESB-borgara sem voru viljugir að ganga í gervihjónaband, án þess að þurfa að búa með makanum. Europol segir sumar giftinganna hafa átt sér stað í Mexíkó eða Bandaríkjunum, en í þessum löndum þurfi báðir aðilar ekki í öllum tilfellum að vera viðstaddir til að giftingin teljist lögleg.

Glæpasamtökin aðstoðuðu einnig fólkið við að komast ólöglega til ESB-ríkja og gerðu þeim kleift að dvelja þar áfram með bæði stolnum og fölsuðum skilríkjum, sem ýmist voru tímabundnar ferðamannavegabréfsáritanir eða dvalarleyfispappírar.

Lokatakmarkið var þó að koma viðkomandi í gervihjónaband svo hann gæti sótt um varanlegt dvalarleyfi.

Segir Europol liðsmenn samtakanna hafa verið ákærða fyrir smygl, skjalafals, mútur og fyrir að hvetja til og aðstoða við tvíkvæni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert