Fimm dagblöð vega að Listhaug

Sylvi Listhaug, fyrrverandi ráðherra innflytjendamála og einn umdeildasti stjórnmálamaður Noregs.
Sylvi Listhaug, fyrrverandi ráðherra innflytjendamála og einn umdeildasti stjórnmálamaður Noregs. AFP

„Ap [Verkamannaflokkurinn] og borgarráð Óslóar hentu eldri borgurum út af St. Halvards-heimilinu. Vistmenn og aðstandendur þeirra grétu. Nú nota þeir heimilið til að hýsa betlara [n. romfolk, notað um ólöglega innflytjendur, aðallega frá Búlgaríu og Rúmeníu]. Kunnið þið ekki að skammast ykkar?“

Þetta skrifar einn umdeildasti stjórnmálamaður Noregs, fyrrverandi ráðherra innflytjenda- og aðlögunarmála og þar á eftir dómsmálaráðherra fyrir Framfaraflokkinn Frp, Sylvi Listhaug, sem í staðinn fær að heyra það óþvegið í leiðurum fimm norskra dagblaða um helgina sem eru Aftenposten, VG, Dagsavisen, Nationen og Stavanger Aftenblad.

Þær eru ekki litlar sakirnar sem Listhaug er brigslað um; lygar, áróður og sorpvæðing (n. forsøpling) þjóðmálaumræðunnar, en tilefni skrifa hennar eru fréttir af því að 60 eldri borgarar, vistmenn St. Halvards-elliheimilisins í Ósló, voru fluttir af heimilinu í síðustu viku og í nýrra heimili þar sem þeirra biðu reyndar einkaíbúðir með eigin snyrtingu og öllu vistlegri kjör en áður. Neytti Listhaug þá færis og sakaði borgarráð um að búa eldri borgurum ömurlegt ævikvöld þrátt fyrir að það væri alls ekki Óslóarborg sem ræki nýja vistheimilið heldur Miðborgarstarf kirkjunnar (n. Kirkens Bymisjon).

„[Hún] kyndir undir þar sem þegar ríkir glóandi hatur,“ segir í leiðara Dagsavisen en leiðarahöfundur segir Listhaug auk þess halla réttu máli gegn betri vitund. Ekki tekur betri gagnrýni við hjá Nationen, sem löngum hefur haft horn í síðu ríkisstjórnar Ernu Solberg sem situr í samstarfi með FrP: „Hversu afkáraleg geta stjórnmálin orðið undir verndarvæng Ernu Solberg?“ er spurt þar á bæ en þar með er málinu ekki lokið.

„Þetta er í sjálfu sér rétt sem hún skrifar,“ segir í leiðara VG þar sem því er þó engu að síður enn fremur haldið fram að Listhaug skrifi „gegn betri vitund“ og málflutningur hennar sé „illilega misvísandi“. Að lokum skrifar leiðarahöfundur Stavanger Aftenblad að skrif Listhaug séu „eigingjarn og tillitslaus áróður“ sem eigi ekkert skylt við stjórnmál. Kvöldblaðið í Stavanger klykkir út með því að Listhaug eigi ekkert erindi í stjórnmál aftur og hafi „sorpvætt umræðuna“ og „leitt á glapstigu“.

Ekki náðist í Listhaug við vinnslu fréttarinnar en hún sagði af sér ráðherradómi 20. mars eftir önnur annáluð ummæli á Facebook þar sem hún sakaði Verkamannaflokkinn um að taka hagsmuni hryðjuverkamanna fram yfir þjóðarhag Noregs, ummæli sem féllu í sérstaklega grýttan jarðveg norsku þjóðarinnar þar sem ráðherrann setti þau fram sama dag og heimildarmynd um fórnarlömb Anders Behring Breivik í Utøya sumarið 2011 var frumsýnd.

Meðal ívitnaðra fjölmiðla:

VG

Dagbladet

Stavanger Aftenblad

Dagsavisen

Nationen

Aftenposten

mbl.is
Rafstöðvar-Varaafl
Útvegum allar stærðir af rafstöðvum, frá Deutz/stamford Cummins Volvo Yanmar...
Vöruúrval fyrir fagurkera
Vöruúrval fyrir fagurkera Húsgögn - Gjafavörur, B&G postulín matar- og kaffistel...
EIGUM ALLSKONAR STIGA Á LAGER
Sjá fjölmargar gerðir á: http://www.sogem-sa.com/stairs Sími 615 1750 Sjá einni...
Flísar og Fúga Flísalagnir
Vandaðar flísalagnir. Föst verðtilboð eða tímavinna þér að kostnaðarlausu. Vöndu...