Allt lögregluliðið í varðhaldi

Kista frambjóðandans borin til grafar í vikunni.
Kista frambjóðandans borin til grafar í vikunni. AFP

Allt lögreglulið mexíkósku borgarinnar Ocampo sætir nú gæsluvarðhaldi, eftir að frambjóðandi þar í kosningum til borgarstjóra var myrtur í vikunni.

„Verið er að yfirheyra þau öll til að athuga hvort einhver kunni að hafa tekið þátt í gjörðum sem brjóta gegn lögum borgarinnar,“ segir talsmaður yfirvalda í Michoacan-fylki, þar sem hin tuttugu þúsund manna borg er staðsett.

Frambjóðandinn, Fernando Angeles, var skotinn til bana á fimmtudag. Löggæsla í borginni er nú í höndum innra eftirlits lögregluyfirvalda í fylkinu.

Frá því kosningabaráttan hófst í Mexíkó, sem enda mun með kosningum þann 1. júlí, hafa fleiri en hundrað stjórnmálamenn og frambjóðendur verið myrtir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert