Sjö úr sértrúarsöfnuði teknir af lífi

Shoko Asahara þegar hann var handtekinn árið 1995.
Shoko Asahara þegar hann var handtekinn árið 1995. AFP

Leiðtogi japanska safnaðarins Æðsta sannleiks, Shoko Asahara, var tekinn af lífi í dag ásamt sex öðrum úr söfnuðinum. Asaharo var dæmdur til dauða fyrir að hafa skipulagt taugagasárás í neðanjarðarlestakerfinu í Tókýó árið 1995 og aðra glæpi. Kostaði hún 12 manns lífið en Asahara var fundinn sekur um að hafa valdið dauða 27 manna alls.

Asahara, sem heitir réttu nafni Chizuo Matsumoto, stofnaði söfnuðinn Æðsta sannleik 1984, og hefur verið á dauðadeild í meira en áratug. Dómsmálaráðherra Japan, Yoko Kamikawa, staðfesti fyrr í dag að aftökurnar sjö hefðu farið fram og sagði að liðsmenn safnaðarins hefðu framið viðbjóðslega glæpi sem ættu aldrei að endurtaka sig. 

Mennirnir sjö sem voru teknir af lífi í dag.
Mennirnir sjö sem voru teknir af lífi í dag. AFP

Sex liðsmenn Æðsta sannleiks eru enn á dauðadeild en þeirra bíður henging líkt og þeirra sjö sem teknir voru af lífi í morgun.

Æðsti sannleikur var til að byrja með mjög svo sakleysislegur trúarhópur sem eins og svo margir hópar stundaði jóga og seldi heilsudrykki. Leiðtogi hópsins, Shoko Asahara, hélt því fram að hann hefði dulrænt vald sem gerði honum kleift að breyta sér í allra kvikinda líki.

Hugmyndafræðin var tekin úr ýmsum trúarbrögðum, þar á meðal búddatrú, hindúisma og kristni. Asahara kenndi að heimurinn myndi farast og úr honum rísa nýr og betri heimur. Þessi hugmynd var síðan notuð til að réttlæta ofbeldi og glæpi sem framdir voru af hópnum, svo sem tilraun til morðs á lögfræðingi sem studdi fyrrverandi liðsmenn hópsins, taugagasárás í Nagano-sýslu árið 1994 í tengslum við ósætti við yfirvöld þar um land, og síðan sams konar árás í Tókýó árið 1995 þegar ljóst var að yfirvöld voru að íhuga aðgerðir gegn söfnuðinum.

Tólf manns létust í árásinni og meira en 5.000 veiktust af völdum gaseitrunar. Það sem fólki fannst illskiljanlegt var að margir af forystumönnum hópsins, að leiðtoganum undanskildum, voru ungir, hámenntaðir raunvísindamenn, segir í frétt Morgunblaðsins um málið á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert