„Við höfum aldrei séð annað eins“

Risavaxinn ísjakinn skammt undan landi við þorpið Innaarsuit.
Risavaxinn ísjakinn skammt undan landi við þorpið Innaarsuit. Skjáskot/Facebook

Íbúar í Innaarsuit á vesturströnd Grænlands eru vanir að sjá stóra ísjaka reka hjá. En borgarísjakinn sem nú lónir skammt undan landi er af stærðargráðu sem enginn hefur nokkru sinni séð áður. Búið er að rýma hús næst ströndinni í þorpinu vegna hættu á flóðbylgju brotni stórir jakar frá ferlíkinu.

Tæplega 170 manns búa í Innaarsuit. 

„Við erum vön að sjá stóra ísjaka, þeir koma sí og æ,“ segir sveitarstjórnarmaðurinn Susanna K. Eliassen í samtali við grænlenska ríkisútvarpið. „Sumir eru hættulegir, aðrir ekki. En í þessum er gjá og margar sprungur. Við höfum aldrei séð annað eins.“

Í gær rak jakann enn nær landi en í morgun rak hann utar á ný. 

Íbúum húsa sem standa næst ströndinni hefur verið gert að yfirgefa heimili sín í varúðarskyni. Í frétt grænlenska ríkisútvarpsins segir að það hafi aukið öryggiskennd íbúanna sem séu þó enn skelkaðir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert