19 slasast í fellibyl í Japan

Jongdari olli verulegum skemmdum á íbúðarhúsi í Nara.
Jongdari olli verulegum skemmdum á íbúðarhúsi í Nara. AFP

19 manns hið minnsta slösuðust er kröftugur fellibylur fór yfir mið- og vesturhluta Japan. 150.000 heimili eru án rafmagns eftir að fellibylurinn Jongdari kom þar inn með vindhraða sem náði 180 km/klst.

Fellibylurinn kom að landi á Honsu-eyju í gær og hefur eftir það misst nokkuð af styrk sínum og flokkast nú sem hitabeltisstormur. Japanska veðurstofan varar þó við að skriður kunni að falla vegna þeirrar miklu rigningar sem fylgir Jongdari, að því er BBC greinir frá.

Um 36.400 manns í borginni Shobara og 6.300 í borginni Kure voru látin yfirgefa heimili sín í gær. „Ég vil flytja fólk á brot fyrir fram svo það geti bjargað lífi sínu,“ sagði borgarstjóri Hiroshima sem kvaðst óttast að fólk kæmist ekki á brott vegna vinda eða flóða þegar stormurinn kæmi þar yfir.

Hundruðum flugferða var aflýst vegna veðursins.

Í bænum Atami slösuðust fimm manns er sjórinn braut rúðu á veitingastað á hóteli. „Við áttum ekki von á þessu. Öldurnar æddu inn á veitingastaðinn og glerið brotnaði,“ sagði hótelstarfsmaður við AFP-fréttastofuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert