Lögreglan gengur á milli húsa

Lögreglan hefur upplýst að stúlkan heitir Sunniva Ødegård. Talið er …
Lögreglan hefur upplýst að stúlkan heitir Sunniva Ødegård. Talið er að hún hafi verið drepin skammt frá heimili sínu í Noregi. Skjáskot/NRK.no

Norska lögreglan segist ekki hafa neinn grunaðan vegna dauða Sunniva Ødegård, 13 ára stúlku, í smábænum Varhaug í Noregi. Lögreglan hefur fært fleiri vitni til yfirheyrslu og mörg þeirra eru ungmenni. Þá er gengið milli húsa til þess að afla upplýsingar, en ekkert er ljóst um framhaldið að svo stöddu.

Harald Øglænd, réttargæslumaður fjölskyldunnar, segir við norska ríkisútvarpið NRK að hann hafi hitt fjölskylduna í dag þegar hún þurfti að hitta lögregluna vegna skýrslutöku. „Það er rétt lýsing að segja að fjölskyldan hafi orðið fyrir miklu áfalli. Enda eru þetta mjög grimmar aðstæður, að ganga um í leit að dóttur sinni og finna hana drepna,“ segir Øglænd.

Ummerki styðja tilgátu lögreglu

Stúlkan er sögð hafa verið hjá vini sínum og átti hún að vera komin heim klukkan 23:00. Þegar hún skilaði sér ekki fór faðir stúlkunnar að leita að henni og rakst hann á lögreglubifreið sem var í smábænum vegna tilkynningar um innbrot. Upplýsti hann lögregluna um stöðu mála sem hóf leit að stúlkunni ásamt nokkrum íbúum og fannst lík Sunniva um klukkan 03:10 á göngustíg skammt frá heimili hennar.

Ekki hefur verið upplýst hver fann Sunniva, en lögreglan segir að viðkomandi sé fullorðinn og tengist henni.

Lögreglan heldur enn fast við fyrri tilgátu að Sunniva hafi verið drepin, en er þó ekki reiðubúin að útiloka aðra möguleika.

Samkvæmt tilkynningu lögreglu til fjölmiðla voru það ummerki við staðinn þar sem stúlkan fannst sem gefa til kynna vísbendingar sem styðja við þá megintilgátu lögreglu.

Varhaug er við suðvesturströnd Noregs.
Varhaug er við suðvesturströnd Noregs. Kort/Google
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert