Misráðið að treysta Gates

Paul Manafort er sakaður um stórfelld skattaundanskot.
Paul Manafort er sakaður um stórfelld skattaundanskot. AFP

Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Donalds Trump Bandaríkjaforseta, „laug“ og þóttist yfir lögin hafin, samkvæmt því sem saksóknarar sögðu á fyrsta degi réttarhalda yfir honum. Hann er sakaður um að hafa falið tugmilljóna dollara tekjur á þrjátíu bankareikningum í þremur löndum.

Manafort er ákærður í alls átján liðum, meðal annars fyrir skattasvindl og gæti, ef hann verður fundinn sekur af sex manna kviðdómi í Alexandríu í Virgíníuríki, þurft að dúsa á bak við lás og slá í 30 ár.

En hann segist ekki sekur, frekar en á fyrri stigum málsins.

Kennir viðskiptafélaganum um

Lögmaður hans sagði í dag að málið snerist um „skatta og traust“ og að skjólstæðingur sinn, Manafort, hefði tekið misráðna ákvörðun um að treysta fyrrverandi viðskiptafélaga sínum, Rick Gates.

„Gates var með hönd sína í smákökukrukkunni,“ sagði verjandinn Thomas Zehnle í opnunarávarpi sínu. Gates þessi var einnig sakaður um misferli ásamt Manafort og hefur síðan játað sekt sína og verið samvinnuþýður yfirvöldum við rannsókn málsins.

Engin brotanna sem Manafort er sakaður um í þessum réttarhöldum tengist rannsókninni á mögulegu samsæri á milli Rússa og kosningaherferðar Bandaríkjaforseta fyrir forsetakosningarnar vestanhafs árið 2016 með beinum hætti, þó að ákærurnar á hendur Manafort séu sprottnar af eftirgrennslan rannsakenda sem vinna að því máli. 

Dómsskjöl málsins gefa í skyn að Manafort hafi fengið tugi milljóna dollara vegna vinnu sinnar í Úkraínu fyrir ráðamenn sem voru hliðhollir Rússum, en Manafort hefur lengi starfað sem pólitískur ráðgjafi. Hann mun síðan, samkvæmt skjölum málsins, hafa skipulagt svikamyllu til þess að koma þessu fé fram hjá nefinu á bandarískum skattayfirvöldum.

Frétt BBC um fyrsta dag réttarhaldanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert