Minning Kim Wall mun lifa

Kim Wall átti framtíðina fyrir sér í blaðamennsku. Hún var ...
Kim Wall átti framtíðina fyrir sér í blaðamennsku. Hún var þrítug er hún lést.

„Eftir tíu ár vona ég að fáir muni hver Peter Madsen var. Á hinn bóginn mun Kim lifa með okkur.“

Þetta segir Ingrid Wall, móðir sænsku blaðakonunnar Kim Wall, sem uppfinningamaðurinn Peter Madsen myrti um borð í kafbáti sínum fyrir ári. Hún segist í viðtali við sænska ríkisútvarpið hafa ofnotað spurninguna „hvers vegna?“ frá því dóttir hennar var myrt. „Ef við gefumst upp hefur hið illa sigrað,“ segir hún um sorgina.

Ingrid Wall og eiginmaður hennar Joachim Wall hafa unnið við fjölmiðlun alla sína starfsævi; hún sem blaðamaður og hann sem ljósmyndari. Í viðtalinu segir hún fjölskylduna hafa ferðast saman um allan heim. Hún telur það geta skýrt þann þorsta sem dóttir hennar hafði á því að fara um heiminn og afla frétta. Hún segist oft hafa haft áhyggjur af dóttur sinni. 

„Þegar maður á dóttur sem keyrir á mótorhjóli um Búrma, býr á gistiheimili á eyjum í Karabíska hafinu, fer til Norður-Kóreu og svo yfir Kyrrahafið á vafasömu sjófari, þá er maður með hnút í maganum,“ útskýrir hún. 

Sænska blaðakonan Kim Wall.
Sænska blaðakonan Kim Wall. AFP

Ingrid Wall segir Kim hafa verið blaðamann af gamla skólanum. Hún hafi ekki dvalið langdvölum á ritstjórnarskrifstofum heldur farið út á meðal fólks og til fjarlægra staða til að afla frétta. Hún hafi stundum setið tímunum saman með viðmælendum sínum og rætt við þá, hlustað á þá og spurt spurninga.

„Kim hafði einstakt lag á því að kynnast áhugaverðu fólki og fá það til að segja sér sögu sína,“ segir móðir hennar og nefnir sem dæmi viðtöl sem hún átti við ungt fólk í Norður-Kóreu. 

Ár frá morðinu

Fyrir sléttu ári fór Kim Wall um borð í kafbát Madsens og sigldi með honum út á haf. Hún sneri aldrei aftur og var myrt þá um kvöldið eða snemma nætur. 

Móðir hennar segir að fljótlega eftir að hún fékk fréttirnar af dauða dóttur sinnar hafi fjölskyldan ákveðið að stofna sjóð í hennar nafni til styrktar öðrum blaðakonum sem hefðu sömu ástríðu og Kim. „Á meðan fólk man nafnið hennar mun hún lifa,“ segir Ingrid.

Ingrid Wall tók þá ákvörðun að láta morðingja dóttur sinnar ekki fá pláss í sínu lífi. Spurð hvernig hún hafi komist í gegnum missinn svarar hún: „Það var ekkert val. Við urðum að takast á við þetta. Ef við gefumst upp þá hefur hið illa sigrað enn einu sinni. Það er líklega eðlilegt að finna til haturs. En það væri of einfalt og þannig myndum við bara upplifa missinn aftur.“

mbl.is
Kantsteins og múrviðgerðir
Vertíðin hafin hafið samband í símum 551 4000. 6908000 á verktak@verktak.is e...
Er með virkilega vel með farinn Volkswagen Polo
Er með virkilega vel með farinn Volkswagen Polo 1,2 ltr til sölu. Kóngablár og m...
4949 skart hálfesti og armband
Útskriftargjöf, Er með nokkrar hálsfestar og armbönd úr 4949 línunni til sölu h...
* Öll stærstu á einum stað
Þú getur spilað með í yfir 50 stærstu Lottóum heimsins. Í yfir 12 ár hafa lottó...