Peter Madsen reyndi að flýja

Peter Madsen afplánar lífstíðardóm fyrir morðið á Kim Wall.
Peter Madsen afplánar lífstíðardóm fyrir morðið á Kim Wall. AFP

Danska lögreglan handtók Peter Madsen í morgun skömmu eftir að hann flúði úr fangelsi. Madsen var dæmdur árið 2017 í lífstíðarfangelsi fyrir morðið á sænsku blaðakonunni Kim Wall.

Í frétt Politiken er vísað í færslu lögreglunnar í Vestegnen í Kaupmannahöfn á Twitter um að hún hafi handtekið fanga á flótta við Nyvej í Albertslund.

Í frétt Ekstra Bladet er birt mynd af Peter Madsen sitjandi við veginn og lögreglumenn liggjandi á jörðinni. Vegurinn er lokaður tímabundið á meðan aðgerðir lögreglunnar standa yfir.

Samkvæmt frétt B.T. á Madsen að hafa hótað því að sprengja sig upp en að hann væri með sprengju á sér. Þannig hafi honum tekist að flýja úr fangelsinu. Sprengjusveit lögreglunnar tekur þátt í aðgerðunum. Lögreglan hefur ekki viljað staðfesta að fanginn sé Madsen en hann afplánar í Herstedvester-fangelsinu sem er aðeins í nokkur hundruð metra fjarlægð frá þeim stað sem hann var handtekinn.

mbl.is