Lést við vinnu á HM-leikvangi

Farandverkamenn ganga til vinnu við Al-Wakrah-knattspyrnuleikvanginn.
Farandverkamenn ganga til vinnu við Al-Wakrah-knattspyrnuleikvanginn. AFP

23 ára gamall nepalskur verkamaður lést í Katar í dag þar sem hann var að vinna við einn af leikvöngunum sem notaðir verða á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu eftir fjögur ár.

„Búið er að láta ættingja mannsins vita af atvikinu, sem og yfirvöld í Katar og Nepal,“ kom fram í yfirlýsingu á vefsíðu skipuleggjenda heimsmeistaramótsins.

„Rannsókn á atvikinu er hafin,“ kom einnig fram á vefsíðunni en ekki var greint frekar frá því hvað gerðist.

Maðurinn lést á Al Wakrah-leikvanginum en annar verkamaður frá Nepal hefur áður látið lífið á sama leikvangi. AFP-fréttastofan greinir frá því að dauðsfallið sé það fyrsta í tengslum við uppbyggingu leikvanga í Katar síðan í janúar í fyrra.

mbl.is