Stærsta heræfing frá því í kalda stríðinu

Hermenn á heræfingu í Georgíu. Mynd úr safni.
Hermenn á heræfingu í Georgíu. Mynd úr safni. AFP

Ráðamenn í Rússlandi undirbúa nú stærstu heræfingu sem haldin hefur verið í landinu frá því á dögum kalda stríðsins, en meðal þátttakenda verða 300.000 liðsmenn hersins í austurhluta Síberíu. Þá munu kínversk stjónvöld senda 3.200 hermenn með brynvarða bíla og herflugvélar til að taka þátt í æfingunni, sem fengið hefur heitið Vostok-2018.

BBC segir síðustu heræfingu Rússa á þessum umfangsmikla skala hafa verið haldna árið 1981. Mun fleiri hersveitir taka hins vegar þátt í æfingunni nú.

Töluverð spenna hefur verið í samskiptum Rússa og Nató-ríkja frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014. Dmitry Peskov, talsmaður rússnesku stjórnarinnar, sagði heræfinguna réttlætanlega í ljósi „óvægins og fjandsamlegs“ viðhorfs til Rússa.

Rússneskir sjóliðar. Um 80 herskip úr tveimur rússneskum flotum taka …
Rússneskir sjóliðar. Um 80 herskip úr tveimur rússneskum flotum taka þátt í æfingunum. Mynd úr safni. AFP

Á pari við stórorrustur heimsstyrjaldarinnar síðari

Unnið er að undirbúningi og skipulagningu í dag og á morgun, en heræfingin hefst á fimmtudag og mun standa yfir í fimm daga að því er Interfax-fréttastofan hefur eftir hershöfðingjanum Valery Gerasimov. Að sögn rússneska varnarmálaráðuneytisins munu 36.000 skriðdrekar taka þátt í æfingunni, sem og brynvarðir bílar og yfir 1.000 herflugvélar.

Heræfingin verður haldin á fimm æfingastöðum hersins, fjórum flugvöllum og svæðum á Japanshafi, Beringssundi og Okhotskhafi. Um 80 herskip úr tveimur rússneskum flotum taka þátt í æfingunum.

Að sögn Zvezda, sjónvarpsstöðvar varnarmálaráðuneytisins munu þrjár stórfylkingar rússneskra fallhlífahersveita vera í lykilhlutverki í æfingum í nágrenni landamæra Rússlands, Kína og Mongólíu.

BBC segir umfang æfingarinnar á pari við eina af stóru orrustunum í heimsstyrjöldinni síðari.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og varnarmálaráðherrann Sergei Shoigu. Búist er við …
Vladimír Pútín Rússlandsforseti og varnarmálaráðherrann Sergei Shoigu. Búist er við að Pútín fylgist með æfingunni. AFP

Nútímavæðing hersins forgangsmál hjá Pútín

Vladimír Pútín Rússlandsforseti er sagður hafa gert nútímavæðingu hersins, m.a. með þróun nýrra kjarnorkuvopna, að forgangsatriði.

Búist er við að Pútín verði viðstaddur æfinguna, eftir að hafa verið gestgjafi á efnahagsráðstefnu í borginni Vladivostok þar sem Xi Jinping, forseti Kína, hefur verið meðal gesta. 

„Það hentaði Vesturlöndum vel að hersveitir okkar skorti samhæfingu og hæfni, en nú eru tímarnir aðrir og nú er viðhorf okkar til þess að vera tilbúin að berjast annað,“ sagði rússneski öldungadeildarþingmaðurinn og varaofurstinn Frants Klintsevich.

Kínverska varnarmálaráðuneytið hefur rætt um aukið hernaðarsamstarf og að „bæta hæfni beggja hliða til að bregðast í sameiningu við ýmsum öryggisógnum“ og Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra Rússlands, hefur sagt íslamska öfgatrúarmenn í Mið-Asíu vera verulega ógn við öryggi Rússa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert