Biðjast afsökunar á höfrungasýningu

Héðan í frá mun skipuleggendum móta sem þessara verða veitt …
Héðan í frá mun skipuleggendum móta sem þessara verða veitt meira aðhald og þeim leiðbeint í ákvarðanatökum sem þessum. AFP

Japanska siglingasambandið hefur beðist afsökunar eftir að höfrungasýning var haldin fyrir keppendur í heimsmeistaramótsröðinni í siglingum, en keppnin var einnig nýtt sem æfing fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020.

Samkvæmt Guardian var keppninni ætlað að veita skipuleggjendum Ólympíuleikanna innsýn í það hversu tilbúnir þeir væru, sem og keppendum tækifæri til að kynnast siglingaleiðinni.

Opnunarhátíð mótsins olli skipuleggjendum hins vegar talsverðum vandræðum, en keppendur voru sumir hverjir ekki ánægðir með að þeim hefði verið boðið á höfrungasýningu á sædýrasafni. Forsvarsmenn heimsmeistarakeppninnar sögðust vonsviknir vegna atviksins, og tóku fram að þeirra samþykkis þeirra hefði ekki verið leitað vegna málsins.

Alþjóðlega siglingasambandið hefur sett sér markmið tengd náttúruvernd fyrir árið 2030 og sagði atvikið ekki í takt við nýja stefnu sambandsins. Héðan í frá mun skipuleggendum móta sem þessara verða veitt meira aðhald og þeim leiðbeint í ákvarðanatökum sem þessum.

Siglingakappinn Luke Patience vakti upphaflega athygli á málinu á Twitter, þar sem honum sagðist hafa verið brugðið vegna sýningarinnar og að hann vonaði að siglingaríþróttin gæti sýnt náttúrunni meiri virðingu en þetta.

Skipuleggjendur báðust í kjölfarið afsökunar á málinu og sögðu ákvörðunartökuna hafa sýnt dómgreindarleysi af þeirra hálfu.

Japanir hafa lengi verið gagnrýndir fyrir árlegar höfrungaveiðar sem fara fram í bænum Taiji. Höfrungarnir eru ýmist drepnir og kjöt þeirra selt, eða þeir seldir sædýrasöfnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert