Vilja refsa ungversku stjórninni

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands.
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands. AFP

Evrópuþingið samþykkti í dag að fara í fordæmalausar aðgerðir gegn ríkisstjórn Viktors Orban í Ungverjalandi vegna „kerfisbundinnar ógnar“ við gildi Evrópusambandsins. 

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar er talin mikið högg fyrir forsætisráðherrann Orban sem hafði sagt þingi landsins í gær að skýrslan, sem leiddi til atkvæðagreiðslunnar, væri aðför að heiðri ungversku þjóðarinnar. 

Peter Szijjarto, utanríkisráðherra Ungverjalands, segir atkvæðagreiðsluna ekkert annað en hefndaraðgerð stjórnmálamanna sem eru hlynntir innflytjendum.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar þykir sýna andstöðu hefðbundinna stjórnmálaflokka í Evrópu gegn uppgangi poppúlískra afla í álfunni sem eru andstæð innflytjendum og sökuð um að grafa undan lögum og reglum.

Mikill meirihluti fylgjandi

448 þingmenn Evrópuþingsins greiddu atkvæði með aðgerðum gegn ungversku stjórninni. 197 voru á móti og 48 voru fjarverandi atkvæðagreiðsluna. Þetta er í fyrsta sinn sem þingið hefur tekið skref í þessa átt samkvæmt sjöundu grein stofnsáttmála Evrópusambandsins. Áður hefur verið farið í sambærilegar aðgerðir gegn Póllandi en um það greiddi þingið ekki atkvæði heldur var sú ákvörðun tekin af stjórn ESB.

Judith Sargentini, þingmaður Græningja í Hollandi, átti frumkvæði að málinu á Evrópuþinginu og var henni létt er niðurstaðan var ljós. „Þetta er jákvætt merki um að þingið sé að taka á málinu af ábyrgð og vilji aðgerðir,“ sagði hún. Hefur hún sagt að stjórn Orbans brjóti gegn þeim gildum sem ESB byggir á.

Fá ekki að kjósa

Í skýrslunni sem var gerð fyrir atkvæðagreiðsluna kom fram að uppi væri áhyggjur af sjálfstæði dómstóla í Ungverjalandi, spillingu, tjáningarfrelsi, trúfrelsi og réttindum minnihlutahópa og flóttafólks eftir átta ára valdatíð Orbans.

Með atkvæðagreiðslunni eru tekin fyrstu skrefin undir sjöundu grein stofnsáttmála ESB sem af sumum er kölluð „kjarnorkukosturinn“ en virkjun greinarinnar gæti svipt Ungverjaland rétti til að kjósa um málefni Evrópusambandsins. 

Aðrar ríkisstjórnir ESB-landa geta þó komið í veg fyrir slíkt og hafa Pólverjar sagst ætla að gera það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert