Handtekinn fyrir að aka yfir emúa

Maðurinn ók á eftir hópi emúa og fagnaði og hló …
Maðurinn ók á eftir hópi emúa og fagnaði og hló er hann keyrði þá niður. Skjáskot úr myndbandinu

Tvítugur ástralskur maður hefur verið handtekinn vegna myndskeiðs, sem sýndi hann keyra bíl sínum viljandi á emúa, stóra ófleyga fugla sem víða má finna í ástralskri náttúru.

Myndskeiðinu var deilt á samfélagsmiðlum fyrr í vikunni og vakti það gríðarlega reiði á meðal Ástrala, sem einsettu sér að finna brotamanninn.

Lögreglan í Viktoríufylki tilkynnti í dag að maðurinn hefði verið handtekinn og hefði verið ákærður í fleiri liðum fyrir dýraníð. Hann kemur fyrir dóm í nóvember.

Yfirvöld lýstu eftir manninum eftir að myndskeiðið fór í dreifingu.
Yfirvöld lýstu eftir manninum eftir að myndskeiðið fór í dreifingu. Skjáskot úr myndbandinu

Í myndbandinu heyrðist í manninum fagna og öskra „fokking emúar“ er hann keyrði á hvern fuglinn á fætur öðrum á fáförnum malarvegi í bænum Cowangie, um 500 kílómetrum norðvestur af Melbourne.

„Þetta er frábært, ég náði þessum líka, og þessum,“ heyrist maðurinn segja í myndskeiðinu, á milli þess sem hann skellihlær.

Samkvæmt lögum í Viktoríufylki geta þeir sem fundnir eru sekir um dýraníð átt yfir höfði sér allt að tveggja ára fangelsisdóm og tæplega 6 milljóna króna sektargreiðslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert