Vilja herða innflytjendalöggjöfina

Kirstjen Nielsen, heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, segir frumvarpinu ætlað að tryggja „sjálfbærni“ …
Kirstjen Nielsen, heimavarnarráðherra Bandaríkjanna, segir frumvarpinu ætlað að tryggja „sjálfbærni“ innflytjenda. AFP

Ríkisstjórn Donald Trumps leitar nú leiða til að takmarka aðgengi þeirra innflytjenda að Bandaríkjunum, sem líklegir eru til að þurfa á aðstoð ríkisins að halda.

Washington Post segir stjórnina ætla sér að gera þeim, sem líklegri eru til að þurfa á húsnæðisstyrk, matarmiðum eða annars konar ríkisaðstoð að halda, erfiðara um vik að koma til Bandaríkjanna. Eru tillögur þessa efnis sagðar hafa verið lagðar fram af heimavarnarráðuneytinu í gær.

Innflytjendalöggjöf Bandaríkjanna hefur lengi reynt að takmarka aðgang þeirra útlendinga sem líklegir eru til að þurfa á fjárhagsaðstoð að halda. Nýja löggjöfin eykur hins vegar möguleika bandarískra stjórnvalda til að synja einstaklingum um vegabréfseftirlit eða dvalarleyfi þurfi þeir eða ættingi þeirra að nýta sér aðstoð á borð við Medicaid, sem er sjúkratrygging tekjulágra, matvælaaðstoðina SNAP eða húsnæðisaðstoð.

„Samkvæmt núgildandi lögum verða þeir sem vilja flytja til Bandaríkjanna að sýna fram á að þeir geti haldið sér uppi fjárhagslega,“ sagði heimavarnarráðherrann Kirstjen Nielsen. Breytingarnar sem nú séu lagðar til eigi að efla „sjálfbærni innflytjenda og vernda takmakað fjármagn með því að tryggja að innflytjendur verði ekki byrði á bandarískum skattgreiðendum.

Talsmenn innflytjenda hafa vakið máls á því að frumvarpið muni neyða fjölskyldur til að leita sér ekki aðstoðar ætli þær að forðast að stofna stöðu sinni sem innflytjendur í hættu.

Telja mannréttindasamtök frumvarpið vera enn eina tilraun Trump-stjórnarinnar til að takmarka enn frekar fjölda löglegra innflytjenda í Bandaríkjunum.

„Þetta mun neyða fjölskyldur, líka fjölskyldur með börn, til að velja milli þess að leita sér þeirrar hjálpar sem þær þurfa og þess að tilheyra samfélaginu áfram,“ sagði  Diane Yentel, formaður samtaka tekjulágra heimila. „Það síðasta sem stjórnvöld eiga að vera að gera er að refsa þeim sem hafa lent í erfiðleikum fyrir að tryggja börnum sínum mat og húsnæði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert