Madsen áfrýjar ekki til Hæstaréttar

AFP

Danski uppfinningamaðurinn Peter Madsen, sem fékk lífstíðardóm fyrir morðið á sænsku blaðakonunni Kim Wall, mun ekki áfrýja dómnum til Hæstaréttar. Lögmaður hans staðfesti þetta í dag. Yfirréttur í Kaupmannahöfn hafði áður staðfest lífstíðardóm héraðsdóms, sem Madsen hafði áfrýjað og krafist þess að hann yrði styttur. Lífstíðardómur í Danmörku er yfirleitt 16 ár.

Madsen hefur haldið því fram að Wall hafi látist af slysförum um borð í kafbáti hans, en hann hefur viðurkennt að hafa bútað lík hennar niður og kastað því í sjóinn.

„Hann vill að þessu máli ljúki og vonast til að aðstæður hans í fangelsinu verði eðlilegar,“ sagði Betina Hald Engmark, lögmaður hans, í samtali við danska fjölmiðla. „Hann telur að með því að fara með málið fyrir Hæstarétt verði heimsóknarbann hans lengt,“ sagði Engmark jafnframt.

Madsen afplánar dóm sinn í fangelsi í vesturhluta Kaupmannahafnar þar sem vistaðir eru fangar sem þurfa á geðrannsókn að halda og viðeigandi aðstoð vegna geðrænna vandamála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert