„Aldrei séð neitt í líkingu við þetta“

Þak af vöruhúsi í Figueira da Fozer fauk af og …
Þak af vöruhúsi í Figueira da Fozer fauk af og eyðilagðist í óveðrinu. AFP

Yfir 300.000 heimili eru nú án rafmagns eftir að fellibylurinn Leslie gerði mikinn usla í Portúgal. Í morgun var greint frá því að þau hefðu verið um 15.000 en komið hefur í ljós að mun fleiri heimili hafa misst rafmagn. Þá segja yfirvöld að 27 einstaklingar hafi hlotið minni háttar áverka. 

Vindhraðinn mældist um 50 metrar á sekúndu þegar Leslie gekk yfir landið. Sjór flæddi á nokkrum stöðum, hátt í þúsund tré rifnuðu upp með rótum og þá var mörgum flugferðum aflýst sökum veðurs. 

Tré rifnuðu upp með rótum víða og höfnuðu ofan á …
Tré rifnuðu upp með rótum víða og höfnuðu ofan á bifreiðum sem krömdust. AFP

Óveðrið er það kraftmesta sem gengið hefur yfir landið frá árinu 1842, að því er segir á vef BBC.

Þau svæði sem urðu verst úti eru í og við höfuðborgina Lissabon. Einnig í héruðunum Coimbra og Leiria. 

Vegna veðursins var A1-hraðbrautin lokuð um tíma út af trjám og öðru lauslegu sem féll á brautina.

Gervihnattamynd sem sýnir hvernig Leslie nálgaðist Portúgal í gær.
Gervihnattamynd sem sýnir hvernig Leslie nálgaðist Portúgal í gær. AFP

Tæplega 2.000 atvik voru skráð hjá viðbragðsaðilum. Yfirmaður almannavarna í landinu segir hins vegar að það versta sé nú yfirstaðið. 

„Ég hef aldrei séð neitt í líkingu við þetta. Það virtist vera stríðsástand í bænum, bílar lágu kramdir undir trjám. Fólk var óttaslegið,“ sagði einn íbúi í samtali við sjónvarpsstöðina SIC. 

Þakið fauk af íþróttahöll, þar sem hokkímót fór fram, sem varð til þess að stöðva varð keppnina. 

AFP

Fram kemur að það heyri til undantekninga að fellibyljir úr Atlantshafi gangi á land á Íberíuskaga. Aðeins fimm slík tilvik eru skráð. 

Fellibylurinn Leslie myndaðist 23. september en dró svo úr styrk fellibyljarins sem varð að hitabeltisstormi áður en hann kom að landi. Þrátt fyrir það var vindhraðinn sem fylgdi mjög mikill. 

Um 2.000 neyðaratvik voru skráð og um 27 einstaklingar hlutu …
Um 2.000 neyðaratvik voru skráð og um 27 einstaklingar hlutu minni háttar áverka. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert