Nauðguðu stelpum niður í 11 ára aldur

Breskir lögreglumenn að störfum. Mynd úr safni.
Breskir lögreglumenn að störfum. Mynd úr safni. AFP

Breskur dómstóll hefur úrskurðað tuttugu menn seka um að tilheyra hópi sem lagði rækt við ungar stúlkur í því skyni að misnota þær og nauðga þeim. Var sú yngsta aðeins 11 ára gömul, að því er BBC greinir frá.

Voru mennirnir fundnir sekir um 120 brot gegn 15 stúlkum. Brotin áttu sér stað í bænum Huddersfield, en mennirnir héldu áfengi og fíkniefnum að stúlkunum og „notuðu þær svo og misnotuðu að eigin vilja“ að því er segir í dóminum. Mennirnir stunduðu þessa iðju sína um sjö ára skeið,  á árabilinu 2004-2011.

Foringi hópsins, Amere Singh Dhaliwal, fékk lífstíðardóm og á ekki möguleika á reynslulausn fyrr en að 18 árum liðnum. Aðrir liðsmenn hópsins fengu dóma á bilinu 5-18 ár, ekki hafa þó enn verið borin kennsl á alla gerendurna.

Mennirnir eru allir eru Bretar af pakistönskum uppruna og kom fram í dóminum að þeir hefðu lagt rækt við ungar og varnarlausar stúlkur og var ein þeirra sögð hafa haft andlegan þroska á við sjö ára barn.

„Það er óskiljanlegt hvernig þið komuð fram við þessar stúlkur, þessi misnotkun var andstyggileg og illkvittnisleg“, sagði dómarinn Geoffrey Marson. „Hvað varðar þau kynferðismisnotkunarmál sem þessi dómstóll hefur þurft að taka á, þá er þetta í efsta flokki.“ Sagði Marson við dómsuppkvaðninguna yfir Dhaliwal að umfang og alvarleiki brota hans næði langt umfram nokkuð sem hann hefði áður staðið frammi fyrir.

„Líf barna hafa verið eyðilögð og fjölskyldur hafa orðið fyrir alvarlegum áhrifum við að sjá börn sín um mánaða og ára skeið vera stjórnlaus eftir þá rækt sem þú og aðrir liðsmenn hópsins lögðu við þær.“

Að sögn BBC var valdið sem mennirnir höfðu yfir stúlkunum slíkt að ein stúlkan höfuðkúpubraut sig við að hoppa niður af svölum heima hjá sér til að koma til fundar við þá eftir að þeir höfðu skipað henni að koma.

Hún sagði síðar við lögreglu: „Í hvert skipti sem ég fór út þá gerðist eitthvað slæmt. Ég hætti lífi mínu í hvert skipti. Ég var í algjöru rugli.“

Önnur stúlka losnaði ekki fyrr en fjölskylda hennar neyddist til að flytja eftir að það kviknaði í húsi þeirra. „Það var það besta sem ég nokkrum sinnum gerði og það er slæmt að segja að það besta sem maður hafi gert sé að brenna heimili sitt,“ sagði hún.

mbl.is
Sumarhús- Gestahús- Breytingar
Sumarhús - Gestahús - Breytingar ? Framleiðum stórglæsileg sumarhús í ýmsum stær...
Giftingar- og trúlofunarhringar frá ERNU
Mikið úrval. Á mynd er silfurpar með alexandrite-steini sem gefur mikið litaflóð...
Til sölu 16" álfelgur og snjódekk
Felgurnar eru original Mitsubishi 16", gatadeiling 108x5. Dekkin eru Firestone ...