Reyndi að hafa áhrif á þingkosningarnar

John C. Demers aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna.
John C. Demers aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna. AFP

Bandaríska dómsmálaráðuneytið ákærði í dag rússneska konu fyrir að hafa reynt að hafa áhrif á þingkosningarnar sem fram fara í Bandaríkjunum nú í haust. Er konan, Elena Alekseevna Khusyaynova, fyrsti einstaklingur sem hefur verið ákærð fyrir að reyna að hafa áhrif á þessar kosningar.

AFP-fréttastofan segir Khusyaynova, sem býr í Sankti Pétursborg, vera í forsvari fyrir aðgerð stofnunarinnar Internet Research Agency. Er hún ákærð fyrir að hafa tekið þátt í „upplýsingastríði gegn Bandaríkjunum“ með því að vera stjórnandi svo nefnds tröllabús, eða svo nefnds „troll-farm“, sem er miðstöð eða samtök þar sem unnið er skipulega að því að koma ósannindum eða misvísandi upplýsingum á framfæri á netinu.

Hafi efninu verið ætlað að valda ósætti innan bandaríska stjórnmálakerfisins og grafa undan trú á bandarískum stofnunum, en markmiðið með tröllabúum er að skapa sundrungu og óstöðguleika. 

Verkefnið ber, að sögn BBC, heitið Lakhta og eru Khusyaynova og teymi hennar sökuð um að hafa búið til deiluefni og birt rangar upplýsingar til að mynda gjá milli Bandaríkjamanna.

Sagði aðstoðardómsmálaráðherrann John Demers að Khusyaynova, sem er ákærð fyrir samsæri um svik gegn Bandaríkjunum, hafi í samráði við teymi sitt reynt að hafa áhrif á bandarískt lýðræði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert