Boko Haram myrðir 12 bændur í Nígeríu

Nígerískur hermaður á brynvörðum bíl. Mynd úr safni.
Nígerískur hermaður á brynvörðum bíl. Mynd úr safni. AFP

Uppreisnarmenn Boko Haram-samtakanna myrtu í dag 12 bændur þar sem þeir voru við störf á ökrum sínum í Borno-héraði í Nígeríu.

Hefur AFP-fréttastofan eftir varaherliði í héraðinu að uppreisnarmennirnir hafi komið að ökrunum á tveimur bílum og þeir hafi síðan ráðist á bændurna með sveðjum. Árásin átti sér stað í nágrenni þorpsins Kalle, sem er skammt frá héraðshöfuðborginni Maidugur, en þar eiga samtökin upptök sín.

„Þeir notuðu sveðjur til að drepa fórnarlömb sín,“ sagði Babakura Kolo, yfirmaður varaliðsins. „Við erum núna búin að finna 12 lík á ökrunum og í næsta nágrenni.“

Þrír til viðbótar særðust í árásunum, en að sögn Ibrahim Liman, annars foringja í varaliðinu, hlupu bændurnir á brott er þeir sáu uppreisnarmennina nálgast.

Ekki liggur fyrir hvor armur Boko Haram-hreyfingarinnar stóð að árásinni, en þeir Boko Haram-liðar sem eru hliðhollir Abubakar Shekau hafa orð á sér fyrir mannskæðar árásir á almenna borgara. Sá armur sem hefur tengsl við íslamska ríkið hefur hins vegar frekar beint sjónum sínum að hernaðarlegum skotmörkum og skotmörkum sem Vesturlönd eiga hlut í. Báðar fylkingar hafa þó gert árásir á almenna borgara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert