Sphen og Magic sjá ekki sólina fyrir unganum

Tveir mörgæsakarlfuglar sjá nú ekki sólina fyrir mörgæsarunga sem þeir náðu að klekja úr eggi í síðustu viku.

AFP-fréttastofan hefur eftir Trish Hannan hjá Sea Life Sydney-sædýrasafninu að mörgæsirnar tvær, Sphen og Magic, skiptist nú á um að annast ungann sem vó 91 gramm er hann kom úr eggi á föstudaginn í síðustu viku.

Sphen og Magic vöktu athygli starfsfólks þessa ástralska sædýrasafns er þeir voru stöðugt á ferðinni saman. Þeir tóku síðan að byggja sér hreiður saman og kom starfsfólkið þá fyrir gervieggi í hreiðrinu. Er þeir höfðu sannað sig í umönnunarhlutverkinu var þeim fengið alvöruegg að annast.

Hannan, sem er yfir mörgæsadeild sædýrasafnsins, segir tengsl þeirra Sphens og Magics, sem eru Gentoo-mörgæsir, sterk. „Þeir þekkja kallmerki og söngva hvor annars,“ segir Hannan. „Aðeins mörgæsir sem hafa tengst þannig geta fundið aftur maka sinn á ný eftir aðskilnað.“

Ólíkt mörgum öðrum spendýrum deila karl- og kvendýr mörgæsa foreldrahlutverkinu með sér til hálfs. „Það er engin raunverulegur munur þegar kemur að hegðun karl- og kvendýra,“ útskýrir Hannan. Tilhugalíf tveggja karl- eða kvendýra sé því algengt hjá mörgæsum. Úti í náttúrunni lýkur því sambandi hins vegar oft þegar dýrunum tekst ekki að fjölga sér og hefja þau þá leit að nýjum maka.

„Af því að við höfum veitt Sphen og  Magic þetta tækifæri til að koma unga á legg er mjög líklegt að þeir taki aftur saman á næsta ári.“

AFP segir fleiri dæmi um mörgæsir af sama kyni sem komið hafa unga úr eggi að finna í dýragörðum víða um heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert