Barclay nýr Brexit-ráðherra

Stephen Barclay er nýr Brexit-ráðherra.
Stephen Barclay er nýr Brexit-ráðherra. AFP

Stephen Barclay hefur tekið við embætti ráðherra Brexit mála í stjórn Theresu May forsætisráðherra Bretlands. Greint er frá þessu á vef BBC, en Dominic Raab sagði af sér sem Brexit ráðherra í gær eftir að ríkisstjórnin samþykkti samningsdrög um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.

Barclay, sem áður gegndi ráðherraembætti í velferðarráðuneytinu, verður þriðji Brexit ráðherrann í stjórn May.

Segir talsmaður skrifstofu forsætisráðherrans að Barclay muni beina athygli sinni að undirbúningi fyrir útgöngu úr ESB heima fyrir, frekar en á samningaviðræðurnar við ESB.

Keir Starmer, skuggamálaráðherra Brexit hjá verkamannaflokknum, sagði ráðningu Barclays engu breyta. „Eftir tveggja ára samningaviðræður hefur forsætisráðherranum mistekið að koma á samkomulagi um útgönguna sem nýtur stuðnings þingsins. Nýtt andlit í Brexit-deildinni mun ekki gera neitt til að sameina á ný þessa sundruðu stjórn.“

Greint var frá því fyrr í dag að Amber Rudd hefði tekið við embætti ráðherra atvinnu- og lífeyrismála og tæki þar við af Esther McVey sem einnig sagði af sér í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert