Deilu um hund lauk með skothríð

Málið hófst er lögregla fékk símtal frá manni í gærmorgun.
Málið hófst er lögregla fékk símtal frá manni í gærmorgun. mbl.is/Atli Steinn

Mál, sem lyktaði með tveimur stórskemmdum lögreglubifreiðum og sundurskotinni vörubifreið í Vinterbro í sveitarfélaginu Ås sunnan við Ósló í gær, hófst sem tiltölulega hversdagslegt lögregluverkefni í gærmorgun, að sögn Gisle Sveen hjá austurumdæmi norsku lögreglunnar.

Lögregla fékk símtal frá manni um morguninn og tilkynnti sá að hundur hans hefði verið bitinn og lægi milli heims og helju. Lögregla sendi þegar menn að heimili hundaeigandans og sáu þeir við komu á staðinn að hundur mannsins var þungt haldinn og óku rakleiðis með dýrið undir læknishendur í Østfold þar sem það gekkst þegar undir aðgerð og mun vera að braggast.

Ók á lögreglubifreiðina

Líður svo fram á síðdegi en þá hringir hundaeigandinn í Ås í lögregluna æfur af bræði yfir að lögregluþjónar hafi numið hund hans á brott þá um morguninn. Gekk hann svo langt að hóta nafngreindum lögregluþjónum líkamsmeiðingum og sagðist hafa veiðiriffil í fórum sínum.

„Þegar þetta kom fram var ákveðið að handtaka manninn og fengu lögreglumenn leyfi til að bera skotvopn í útkallinu,“ segir Sveen við norska ríkisútvarpið NRK. Þegar lögreglubifreiðin kom á vettvang sat hundaeigandinn þegar undir stýri vörubifreiðar sinnar og ók formálalaust á farkost lögreglunnar sem stóð óökufær eftir.

Þeir sem fyrir ákeyrslunni urðu kölluðu þegar til liðsauka og var einnig ekið á þá lögreglubifreið og gerði hundaeigandinn tilraun til að aka á fleiri sem dreif að. Lögregla sá sitt óvænna og brá á það ráð að skjóta fjölda skota að hjólbörðum vörubifreiðarinnar sem að lokum nam staðar flötum dekkjum á móts við skemmtigarðinn Tusenfryd og var maðurinn þegar handtekinn en lögregla hafði þá lokað E6-brautinni við Nøstvet-göngin Óslóarmegin í öryggisskyni. Einnig hafði hún sent út tilkynningu á Twitter-síðu sinni og beðið vegfarendur að halda sig fjarri Vinterbro.

Dagblaðið VG greindi einnig frá atburðum.

Réttindalaus í vímu

Reyndist hundaeigandinn og vörubifreiðarstjórinn undir svo þungum áhrifum að engin leið var að yfirheyra hann og gistir hann enn fangaklefa í Ski þegar þetta er ritað. Að auki reyndist maðurinn án ökuréttinda en meint skotvopn fannst hins vegar ekki.

Vörubifreiðar virðast nýttar með allframúrstefnulegum hætti í Ås sem er lítið bæjarfélag, sá sem þessa frétt skrifar ók þar í gegn tvisvar á dag vegna vinnu hálfan síðasta vetur. Ekki er lengra síðan en rúmt ár að maður ók vörubíl á föður sinn í Ås í kjölfar áralangra fjölskyldudeilna og greindi mbl.is frá málinu.

Fréttir annarra fjölmiðla af málinu í gær en þegar hefur verið vísað í:

Frá Aftenposten

Frá TV2

Frá Dagbladet

mbl.is
ÞÝSKAR KERRUR _ FJÖLNOTA OG MEÐ STURTUM
L: 251,305,405,502,611 x B: 153,178,183,203,223 cm, burður 1350 til 3500 kg. Stu...
Falleg þriggja herbergja íbúð til leigu í Hrísateig.
Falleg þriggja herbergja íbúð í Hrísateig. Um er að ræða hjónaherbergi, lítilð b...
Greinakurlarar
Eigum til 15 hp greinakurlara með bensínmótor. Taka allt að 100mm greinar. Upp...
Greinakurlari
Glussastýrður greinakurlari fyrir traktor, www.hardskafi.is Sími 896 5486...