Sagði af sér vegna ferðakostnaðar

Erik Solheim hefur sagt af sér sem yfirmaður umhverfisnefndar Sameinuðu …
Erik Solheim hefur sagt af sér sem yfirmaður umhverfisnefndar Sameinuðu þjóðanna. AFP

Norðmaðurinn Erik Solheim hefur sagt af sér sem yfirmaður umhverfisnefndar Sameinuðu þjóðanna eftir að í ljós kom að kostnaður vegna tveggja ára ferðalaga hans í starfi nam um 60 milljónum króna.

Upplýsingarnar komu fram í drögum innri endurskoðunar, sem blaðið The Guardian, komst yfir og BBC bar augum. Fram kom að Solheim hefði talið fram þennan kostnað eftir að hafa farið í 529 ferðalög á 668 dögum.

Í drögunum segir að þessi háa upphæð hafi skaðað orðspor umhverfisnefndar Sameinuðu þjóðanna sem leggi áherslu á umhverfismál og sjálfbærni. Ekkert hafi verið gert til að hafa eftirlit með ferðalögum hans.

Solheim, sem er fyrrverandi umhverfisráðherra Noregs, segist hafa borgað þann pening til baka sem tengist „atvikum vegna yfirsjónar“.

Solheim staðfesti uppsögnina sína í gær, að sögn norska fjölmiðilsins NRK.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert