42 handteknir í mótmælum í París

42 mótmælendur voru handteknir í óeirðum sem brutust út á Champs-Élysées-strætinu í miðborg Parísar í dag þar sem tugþúsundir manna komu saman til að mótmæla hækkun á eldsneytisverði auk fleiri stefnumála ríkisstjórnar Emmanuels Macron Frakklandsforseta.

Lög­regl­an beitti tára­gasi og sprautaði vatni til að dreifa hópi mót­mæl­enda sem reyndu að kom­ast inn fyr­ir ör­ygg­is­girðingu sem lög­regl­an hafði reist við sigurboganum á Champs-Élysées. 19 særðust í mótmælunum, þar af fjórir lögreglumenn.

Mót­mæl­end­urn­ir klæðast all­ir skærgul­um ör­ygg­is­vest­um og fara því ekki fram hjá nein­um. Um 3000 lögreglumenn voru að störfum í París og hluti mótmælendanna kastaði ýmsu lauslegu í átt að lögreglu og rifu niður umferðarljós og umferðarskilti. Mótmælin hafa stigmagnast síðustu vikur og er þetta önnur helgin í röð þar sem mótmælendur klæðast gulum vestum og vilja þeir með því stöðva umferð til að vekja athygli á málstað sínum.

Alls voru um 81.000 manns saman komin í miðborg Parísar í dag. Mótmæli voru skipulögð á um tvö þúsund stöðum víðs vegar um landið og í heildina tóku um 280 þúsund manns þátt í mótmælunum í dag. Alls voru 130 mótmælendur handteknir um allt Frakkland.

Macron tjáði sig um atburði dagsins á Twitter þar sem hann þakkaði lögreglu fyrir þeirra störf en smánaði þá sem veittust að eða ógnuðu óbreyttum borgurum, fjölmiðlafólki eða stjórnmálafólki. „Það er ekkert rými fyrir ofbeldi í (franska) lýðveldinu,“ skrifar Macron í færslu sinni.


Mótmælin fara fram undir yfirskriftinni: Gulu vestin.
Mótmælin fara fram undir yfirskriftinni: Gulu vestin. AFP
„Macon, segðu af þér,“ stendur á vestinu sem einn mótmælendanna …
„Macon, segðu af þér,“ stendur á vestinu sem einn mótmælendanna klæddist í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert