Friðarhvolpar eru fæddir

Tíkin Gomi gaut sex hvolpum, en hún var væntanlega hvolpafull …
Tíkin Gomi gaut sex hvolpum, en hún var væntanlega hvolpafull þegar hún kom til Suður-Kóreu.

Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, birti um helgina myndir af nýfæddum hvolpum sem tíkin Gomi gaut, en hún var friðargjöf frá Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu. Tíkina, sem er af tegundinni pungsan, fékk Moon að gjöf fyrir skömmu síðan, ásamt hundi sömu tegundar, en gjafir hafa gengið á milli leiðtoganna upp á síðkastið til að leggja áherslu á batnandi samskipti Kóreuríkjanna. BBC greinir frá.

Gomi gaut samtals sex hvolpum en í færslu sem forsetinn birti á Twitter segir að Gomi hljóti að hafa verið hvolpafull þegar hún kom þar sem meðgöngutími hvolpa sé tveir mánuðir. „Ég vona að samskipti Kóreuríkjanna verði jafn blómleg,“ sagði hann jafnframt.

Skömmu eftir að hvolparnir komu í heiminn lét Moon senda nokkrar herþotur fullar af ávöxtunum tangarínum yfir til Norður-Kóreu, en áður höfðu Norður-Kóreumenn sent dágóðan skammt af furusveppum yfir landamærin í kjölfar fundar leiðtoganna.

Moon hefur hitt Kim þrisvar á þessu ári og hann hefur verið í hlutverki sáttasemjara á milli Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Kim. Í september síðastliðnum varð Moon fyrsti leiðtogi Suður-Kóreu til að halda ræðu á opnum fundi í Norður-Kóreu í opinberri heimsókn sinni til Pyongyang. Moon sagðist þá sannfærður um að Kóreustríðinu myndi ljúka formlega fljótlega. Átökum lauk reyndar með vopnahléi árið 1953 en friðarsamkomulag hefur aldrei verið undirritað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert