Meirihlutinn vill engan samning

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Meirihluti þeirra sem skráðir eru í breska Íhaldsflokkinn vilja að Bretland segi skilið við Evrópusambandið án þess að fyrir liggi sérstakur útgöngusamningur við sambandið. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar sem fyrirtækið YouGov framkvæmdi.

Fram kemur í frétt breska dagblaðsins Daily Telegraph að gefnir hafi verið þrír svarmöguleikar; að Bretland færi úr Evrópusambandinu án útgöngusamnings, landið yfirgæfi sambandið á grundvelli útgöngusamnings sem Theresa May forsætisráðherra hefur samið um en ekki fengið samþykktan í breska þinginu eða að Bretar yrðu áfram í sambandinu.

Meirihlutinn, eða 57%, vildi yfirgefa Evrópusambandið án útgöngusamnings, sem þýðir að viðskipti Bretlands við sambandið færu fram á grunni reglna Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, 23% sögðust styðja samning May og 15% vildu vera áfram í sambandinu.

Samkvæmt fréttinni vonaðist May og stuðningsmenn hennar til þess að stuðningur við útgöngusamning hennar myndi aukast yfir hátíðirnar. Niðurstaða könnunarinnar bendi hins vegar til þess að andstaða við samninginn hafi þvert á móti aukist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert