Vill að „uppvakningastjórn“ May víki

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, vill að „uppvakningastjórn“ Theresu May segi …
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, vill að „uppvakningastjórn“ Theresu May segi af sér eins og hún leggur sig. AFP

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, segir ríkisstjórn Theresu May, forsætisráðherra og leiðtoga Íhaldsflokksins, vera „uppvakningaríkisstjórn“ (e. zombie government) sem geti ekki stjórnað og segir hann brýnt að stjórnin víki.

„Allir aðrir fyrrverandi forsætisráðherrar sem hefðu unnið annan eins ósigur í gærkvöldi hefðu sagt af sér og landsmenn hefðu fengið tækifæri til að kjósa sér þá stjórn sem það vill,“ sagði Corbyn við upphaf þingfundar í dag þar sem Theresa May forsætisráðherra sat fyrir svörum.

Nú er hafin umræða um vantrauststillögu á ríkisstjórn May sem Cor­byn lagði fram í gærkvöldi eftir að þingið hafnaði Brexit-samningi stjórnarinnar og Evrópusambandsins. Atkvæðagreiðslan er einn mesti ósigur sem sitjandi forsætisráðherra hefur þurft að þola, en samningnum var hafnað með 432 atkvæðum gegn 202.

Corbyn hefur ítrekað farið fram á að boðað verði til kosninga. „Ef ríkisstjórn tekst ekki að koma sínum málum í gegnum þingið á hún að leita til þjóðarinnar eftir nýju umboði,“ sagði Corbyn í umræðum á þinginu í hádeginu.

May svaraði fyrir sig og sagði að á sama tíma og Corbyn vill ólmur ganga til kosninga er hann ekki tilbúinn til að svara hvort að það yrði hluti af kosningabaráttu hans að tryggja útgöngu Breta úr ESB. „Ekki einu sinni, tvisvar eða þrisvar sinnum, heldur fimm sinnum hefur hann neitað að svara því sem hann hefur lýst sem lykilmáli líðandi stundar. Hann hefur ekkert svar,“ sagði May og uppskar töluverðar undirtektir í þinginu.

Segir tvær leiðir til að forðast útgöngu án samnings

Greidd verða atkvæði um vantrauststillöguna klukkan sjö í kvöld. May er fullviss um að hún muni standa tillöguna af sér og er hún þegar farin að undirbúa næstu skref í útgönguferli Breta úr ESB. „Það eru tvær leiðir til að forðast útgöngu án samnings,“ sagði May á þinginu í dag.

Fyrri leiðin, að sögn May, felst einfaldlega í að fallast á þann samning sem er nú þegar fyrir hendi. „Seinni leiðin er að afturkalla 50. grein [Lissabon-sáttmálans] sem þýðir áframhaldandi veru í Evrópusambandinu og vanvirðingu við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar, og það er eitthvað sem þessi ríkisstjórn mun ekki gera,“ sagði May. Í raun og veru er því einn möguleiki að mati May: Að fylgja Brexit-samningnum sem ESB og breska ríkisstjórnin hafa samþykkt. En þeim samningi var hafnað á breska þinginu í gær líkt og kunnugt er.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sat fyrir svörum á breska þinginu …
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sat fyrir svörum á breska þinginu í hádeginu. AFP

Corbyn segir May vera í afneitun eftir niðurstöðu gærdagsins og segir að hún „þurfi að finna upp á einhverju nýju“. Áður en það gerist þarf forsætisráðherrann að standa af sér vantrauststillögu og mun það skýrast með kvöldinu.

Frétt BBC

Greidd verða atkvæði um vantrauststillögu á ríkisstjórn Theresu May klukkan …
Greidd verða atkvæði um vantrauststillögu á ríkisstjórn Theresu May klukkan sjö í kvöld. AFP
mbl.is