May biður þingið um meiri tíma

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Atkvæðagreiðsla vegna Brexit verður á breska þinginu í þessum mánuði óháð því hvort Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, nær að semja um breytingar á samningnum áður en atkvæðagreiðslan fer fram.

May hefur síðustu daga reynt að fá leiðtoga ESB til að endurskoða Brexit-samninginn með tilliti til ákvæðis varðandi landamæri Norður-Írlands. BBC greinir frá því að May muni leita til breska þingsins í vikunni og leggja fram tillögu um atkvæðagreiðslu í lok mánaðarins um aðra möguleika sem koma til greina vegna Brexit, verði nýr samningur ekki tilbúinn í lok febrúar.

Talsmaður stjórnarandstöðunnar sakar May um að láta tímann fara til spillis og setja þingmenn í þá erfiðu stöðu að þurfa að velja á milli þess að samþykkja útgöngusamninginn óbreyttan eða fallast á útgöngu án samnings.

Til að koma í veg fyrir að Bretland gangi úr Evrópusambandinu án samnings verður May að fá samninginn samþykktan á þinginu fyrir 29. mars, daginn sem Bretar munu ganga úr ESB.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert